Tuesday, February 22, 2011

Að gefnu tilefni

það er ekkert annað en tilraun til þöggunar og algerlega óásættanleg hegðun, af fullorðnu fólki sem veit betur, að fara fram á að glæpir Ægis Geirdal séu sussaðir niður sem fjölskylduharmleikur. Fyrir utan vanvirðinguna sem fórnarlömbum  hans utan fjölskyldunnar er sýnd með slíku tali.

Þetta að það eigi ekki að tala opinberlega um glæpi Ægis vegna þess að fjölskylda hans finnur til hefur verið viðhaft í 20 ár og nú upp á síðkastið á þann hátt að það lítur út eins og við systur njótum stuðnings nærfjölskyldu Ægis. Það að gangast loks við því sem við höfum svo lengi verið að segja er jú mikil viðurkenning, en því hefur ekki verið fylgt eftir á annan hátt en með tilraunum til að sussa niður í okkur. Orðið stuðningur á því bara ekkert við hér og kominn tími til að leiðrétta það.

Ef það er sjúkdómur sem framkallar ofbeldisverk Ægis Geirdal þá inniheldur sá sjúkdómur mikinn, viðvarandi skipulagshæfileika og einbeittan brotavilja. Hver á að taka ábyrgð á því? Börnin sem eru svo óheppin að vera gripin til að sinna sjúklingnum? Stöndum undir nafni sem fullorðið fólk.

Það er mjög skiljanlegt að þeir sem tengjast Ægi nánum böndum þjáist mikið. Eins og allir hafa gert sem  koma meiddir frá honum. Við óskum fjölskyldu Ægis velfarnaðar í að vinna sig út úr þeim harmleik sem þau hafa búið við. Við vitum að þetta er erfitt en um leið felst í því mikill sigur að horfast í augu við óttann og taka ábyrgð á sjálfum sér.

En ábyrgðin stoppar ekki þar. Við öll, sem erum orðin fullorðin og getum með einhverjum hætti stöðvað þessa ofbeldisslóð ber siðferðisleg skylda til þess. Þar berum við jafnt ábyrð á okkar eigin börnum og annarra. Barnaníð er aldrei einkamál sem fjölskylda níðinga getur tekið að sér að leysa. Barnaníð er glæpur.    

Ef það má svo eingöngu fjalla um barnaníð sem opinberar manneskjur fremja þá erum við Ægi ákaflega þakklátar fyrir að hafa gert sjálfan sig að opinberri persónu. Því það hefur hann svo sannarlega gert.

Við systur stöndum við allt sem við höfum verið að segja og blásum á allar tilraunir til að þagga niður í okkur. Ástæðan er einföld, það er ekkert sem réttlætir þöggun í kringum glæpaslóð Ægis Geirdal.

Lifum heil,
Ingibjörg og Sigurlína

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/alma-geirdal-pabbi-er-ekki-opinber-persona---asakanir-um-barnanid-eru-ekki-frettaefni