Friday, February 3, 2012

Vondar minningar

Á meðan ég átti allt undir því að lifa líf mitt af tróð ég vondu minningunum í gleymskuna og vandist því að vera með stöðugan hnút í maganum. Hélt að þannig væri ég. Svo fóru minningar að banka upp á. Fyrst sem lykt, svo sem einstaka myndir sem smám saman röðuðust saman í þann óhugnað sem ég bjó við sem barn. Það var samt ekki fyrr en 40 árum seinna sem ég var komin með nægan styrk til að geta horfst að fullu í augu við þann sársaukafulla óhugnað. Þá varð myndin af tímanum í Garðabæ loks það heilleg að ég skildi upp á hár hvernig ég hafði verið rænd lífi mínu. Þá fyrst gat ég syrgt árin 40 almennilega og byrjað að njóta þess fallega lífs sem mér hefur verið gefið.

Myndirnar af litlu stelpunum
Ég held ég sé orðin 9 ára. Ég þarf að hvísla af því að ég er hrædd. Ég heyri í mömmu niðri í vaskahúsi, hún gæti fattað hvað Ægir er að láta mig gera þarna uppi á loftinu hjá sér. Ég hef alltaf getað passað að mamma komist ekki að neinu og mér tekst það líka núna. Heyri svo vel að hún er að vinna í vaskahúsinu með allan þvottinn okkar. Er ábyggilega að láta hann fara í gegnum vindivélina sem pressar vatnið í burtu. Eina og eina flík í einu. Fallega mamma mín. Hún má alls ekki vita hvernig litla stelpu hún á.

Ægir er vesenast inni í skápnum í herberginu, í kvikmyndavélinni. Ég veit ekki hvað hann er að gera við vélina. Ég er í rúminu. Ég er ekki í buxum, ekki neinu, bara alveg berrössuð. Svo kemur mynd á vegginn. Hinum megin samt, ekki á móti skápnum. Svona stór mynd. Það er kall að kúka. Hjartað mitt slær svo hátt þegar ég sé kallinn kúka á konuna. Á veggnum. Það er í kvikmyndinni. En ég má ekkert segja. Skipa hjartanu mínu að hætta að slá. Verð alveg róleg, frosin. Mig langar ekki að horfa. - En Inga litla komst ekki hjá því að horfa á myndina, berrössuð í hjónarúminu á loftinu. Hún komst heldur ekki hjá því að gera svo allt sem Ægir vildi að hún gerði í kjölfarið. Hún lifði þetta af og strokaði það að mestu út úr barnsminninu. Það var engin önnur leið.

Svo fer Ægir að tala við mig aftur. Ekki til að segja mér hvað ég er skemmtileg og flínk stelpa. Það er ekkert svoleiðis lengur. Nú vill hann bara tala um hvað ég er vont barn. Segir mér að hann hafi þurft að gera svo mikið við þetta vonda barn. Ég hafi líka viljað það. Ægir hlær að mér. Hann er að hlæja að mér og ég get ekki talað. Hann sýnir mér myndina af börnunum. Litlu stelpunum sínum. Myndina sem var á borðinu. Þær eru svo litlar og sætar og ég er búin að skemma allt fyrir þeim. Hann segir að ég sé búin að skemma allt með því að vera eins og ég er. - Með það fór Inga litla af loftinu í það skiptið.

Fjólublái trefillinn með gulu röndunum
Hann var fjólublár með svona gulum röndum og húfa í stíl. Stóra systir prjónaði svona fínt handa mér í jólagjöf þegar ég var ellefu ára. Mér fannst ég svo flott með þetta. En svo breyttist það. þá voru ennþá jól og ég vildi ekki vera með á myndinni. Ég var uppi og Ægir vildi taka mynd af stelpunum sínum. „Vertu með Ingibjörg, vertu með Ingibjörg“ sagð'ann stöðugt. Þessi minning var búin að fylgja mér lengi. Minning þar sem ég var svo pirruð og vildi ekki vera með á myndinni. En var samt með. Minning um myndatöku þar sem að mér hætti að þykja nýji trefillinn minn flottur. Ég skyldi lengi vel ekki hvers vegna. Nú skil ég það mjög vel. Vegna þess að nú ræð ég við minningarnar í kringum þetta atvik.

Ég segi ekki neitt þarna uppi þótt ég vilji hlaupa sem lengst i burtu. Er með á myndinni. Svo er það búið og ég get loks farið. Ég er búin að vera að passa litlu stelpurnar og þau eru komin heim aftur. Lilja líka, hún kemur um leið og Ægir. En ég má samt ekki fara af því að Ægir vill taka mynd. Með sömu kvikmyndavélinni og hann er búinn að nota til að taka myndir af mér þegar ég er ein með honum. Berrassaðri. Núna er hann hlæjandi kátur og vill að ég sé með litlu börnunum sínum á venjulegri mynd. Lilja er að horfa á. Ef hún bara vissi.

Þegar ég kemst loks niður fer ég beint inn í herbergið mitt og loka að mér. Ég er ein þar inni og finnst svo erfitt að anda. Svo geri ég það. Tek nýja trefilinn minn og kyrki mig. Mjög fast, alveg þar til hendurnar verða máttlausar og ég dett á rúmið. Og gólfið. Ég geri þetta oft. Þar til ég er orðin mjög dofin í líkamanum og ringluð í hausnum. Ég er samt ekki nógu sterk til að kyrkja mig almennilega. En mér tekst að stroka í smá stund út úr heimska hausnum á mér hvað ég er búin að gera litlu frænkum mínum. Þær mega aldrei komast að því hvað ég er vont barn. Og ég hata nýja trefilinn minn, ljóta fjólubláa trefilinn með gulu röndunum.

Svona upplifði ég mig þegar ég var ellefu ára. Það var vont. Tilhugsunin um að mamma myndi hætta að elska mig var sérstaklega óbærileg. En þannig fannst mér að það hlyti að verða ef hún þekkti mig rétt. Ég faldi mig því vel og ég lagði mig fram við að sýnast góð. Það jók um leið á sektarkenndina sem öskraði stöðugt innan í mér því ég trúði því í einlægni að ég væri alltaf að plata heiminn.

Ég skila ógeðinu heim til sín
Ég gat ekki grátið yfir neinu af þessu þá. Gat bara þagað og skammast mín. En seinna grét ég. Ég grét óstjórnlega. Ekki af því að ég hafi gert litlu börnunum þínum eitthvað Ægir. Ég var alltaf góð við þessar litlu stelpur. Ég grét vegna sakleysis míns sem þú nýttir þér og tróðst á með þessum ljóta hætti. Ég grét miskunnarleysi ofbeldis þíns í burtu. Langt í burtu. Þú átt það einn.

Hvað það var ljótt af þér að skrökva að mér barninu. Svo ljótt að það er ekki til mælieining yfir það. Allt ljótt sem þú sagðir við mig er ekki í mér lengur. Ekki heldur það góða sem þú sagðir við mig. Það var allt skrök. Ljótt í felubúningi. En það er ekki lengur pláss fyrir neitt af þessu í mér. Ekki í höfðinu mínu, ekki í hjartanu, hvergi í líkama mínum eða sál. Allt ógeðið þitt sem var svört slikja allstaðar í mér, í hjartanu, í munninum, sat fast í hálsinum mínum. Svartur steinklumpur. Sem kæfði orðin. Ég mátti ekki tala. Slikjan var líka í augunum mínum. Hún gerði allt ljótt. En nú er hún farin. Allt svart er farið. Til þín, þar sem það á heima.

Ég er svo þakklát fyrir styrkinn sem mér hefur verið gefinn til að muna loks líf mitt almennilega. Styrkinn til að geta sagt söguna mína. Ég veit að það er ekki auðvelt að hlusta á þessa sögu. Ég bið því líka um að sem flestir öðlist styrk til að hlusta. Það er mikilvægt. Vegna virðingar við mig og öll þau börn sem eiga sögu eins og mína. Líka vegna barnanna sem eru enn í hættu. Ef þau sleppa ekki þá eru miklar líkur á að mörg þeirra geti ekki sagt frá fyrr en löngu seinna. Þau sem verða svo heppin að ekki bara lifa af heldur að ná tengingu við sakleysi æsku sinnar aftur. Þau sem fá styrkinn og stuðninginn til að tala. Fá líf sitt aftur.

Þess vegna er svo mikilvægt að það sé hlustað á okkur. Að fullorðið fólk leggi sig fram við að skilja hvernig þetta gerist, taki það alvarlega og fylgi því eftir alla leið. Okkar allra vegna.

Ingibjörg