Sunday, July 31, 2011

Er hægt að vera hlutlaus þegar kemur að barnaníði?

Það eru ekki svo mörg ár síðan ég trúði því að fólk yfir höfuð væri vel innrætt, þess vegna  kom það eins og hálfgert sjokk þegar mér varð ljóst að svoleiðis væri það alls ekki.
Ég hélt líka að sérstaklega fjölskyldur, bræður og systur, tengdust einhverjum sérstökum böndum og myndu standa saman þegar á reyndi, aftur hafði ég rangt fyrir mér.

Svo virðist sem stór hópur fólks sé einungis annt um það hvernig þeirra eigin lífi er háttað, og er ekki tilbúið til að leggja á sig þau óþægindi sem það kostar að upplýsa um glæp sem einhver innan fjölskyldunnar hefur framið, sama á hverjum það bitnar.

Ennþá í dag lifir sú von í mér að all flestir fyllist viðbjóði og sorg þegar þeir lesa um glæpi gegn börnum. Ég vil ekki trúa því að fólki sé sama og finnist þetta ekki koma sér við.
Þess vegna verð ég svo sorgmædd þegar ég verð vitni af því að meðlimir úr minni eigin fjölskyldu tilheyri þeim hóp sem er alveg sama.

Á sama tíma og það brennur í mér vilji til að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið og tryggja umhverfi barna, notar fólk sem er blóðskylt mér alla sína orku til að sjá til þess að ekkert breytist.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að með þessum sterku skoðunum mínum fylgja afleiðingar, að hluti af minni eigin fjölskyldu mun ekki vilja hafa nein samskipti við mig, ég verð baktöluð og einhverjir eiga eftir að tala um mig sem klikkaða. En ef það er kostnaðurinn við það að fylgja minni eigin sannfæringu, þá er það bara eitthvað sem ég þarf að fórna því ég ætla ekki að taka þátt í þessum feluleik.

Að vera hlutlaus?

Er það raunhæft? Er hægt að segja, og meina það í leiðinni, að manni þyki þetta leitt, rangt, skelfilegt, sorglegt og að maður styðji við bakið á einhverjum sem hefur orðið fyrir glæp,  þegar maður býr yfir upplýsingum sem geta hjálpað en kýs að þegja yfir þeim. Er maður þá ekki í raun að kjósa að standa frekar með og hlífa ofbeldismanninum?

Er það ekki siðferðisleg skylda allra að vernda börn sem geta það ekki sjálf?

Það er vont hvað margir vilja bara halda friðinn "no matter what" því í þeim þrúgandi friði er uppreisnin kæfð og án uppreisnar bætum við ekki heiminn.

Einhver sagði „Maður velur sér vini en ekki fjölskyldu“  bókstaflega er það rétt, en miðað við þá merkingu sem ég les úr orðinu fjölskylda get ég ekki verið sammála.

Mig langar til að hvetja alla sem hafa einhverja vitneskju um glæpi sem tengjast Ægi Geirdal, eða einhverjum öðrum glæpum sem tengjast börnum að stíga fram, þitt hugleysi getur skaðað sál sem getur ekki varið sig sjálf.


Soffía Bæringsdóttir


http://reynslusaga.blogspot.com/