Monday, May 30, 2011

Orð eru stútfull af merkingu sem gefa skilaboð út í samfélagið

Takk fyrir umræðuna um barnaníð. Níðið er raunverulegt í heimi barna og við þurfum að treysta okkur til að tala um þá staðreynd og taka á henni.

Við endurtökum að það geti vel verið flott fyrir fullorðið fólk að velja fyrirgefningu sem sína leið að eigin frelsi, ef það vill, svo framarlega sem það er ekki á kostnað varnarlausra barna. Það er endalaust mikilvægt að fólk átti sig á  muninum á heimi og valdi barna og fullorðinna þegar kemur að þessari umræðu og því hver munurinn er á fyrirgefningu og meðvirkni eins og áður hefur komið fram.
Við ítrekum líka það sem við segjum í okkar pælingum um fyrirgefningu í kringum barnaníð að börn lifa í heimi þar sem fullorðnir ákveða leikreglurnar og setja leiðardæmið í samskiptum. Barn sem lifir í umhverfi þar sem hætta er á ofbeldi sem fullorðið fólk leitast hvorki við að koma í veg fyrir né stöðva, hefur ekkert val eða vald til að velja fyrirgefningu og frelsi. Fram á fullorðinsár leitar það einfaldlega leiða til að lifa ofbeldið af og það er fyrst þá sem við öðlumst alvöru val og vald til að taka ábyrgð eigin lífi. Talið er að það séu um 17% íslenskra barna sem er svo óheppin að búa við þessar aðstæður.
Við endurtökum líka að flestir þeir sem meiða börn tengjast þeim á einhvern hátt. Stundum eru það foreldrar þessara barna. Tilhugsunin um það er alveg skelfilega vond staðreynd sem óskandi væri að gæti bara horfið. En hún gerir það ekki og það er mörgum allt of dýrkeypt ef við höldum áfram að tipla á tánum í kringum þessi mál eins og köttur um heitan graut. 
Forvarnarstarf fyrir börn í tengslum við kynferðislegt ofbeldi er sem betur fer vaxandi og fleiri börn en áður sem hafa kjark til að segja frá. Ennþá lifum við samt í heimi þar sem börnin finna sig sjaldnast örugg til að segja frá ofbeldi sem þau lifa við og hafa heldur ekki forsendur til þess. Því er það skelfilega oft sem ábyrgðinni er ekki skilað þangað sem hún á heima fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum seinna. Þá standa aðrir fullorðnir í kringum þolendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu gagnvart ofbeldinu og þeim sem því beita. Fólki sem það hefur treyst, þykir jafnvel mjög vænt um og tengist hagsmunaböndum. Þetta eru vondar aðstæður sem enginn vill vera í. Enn og aftur segja staðreyndirnar okkur líka það að allt of margir sem standa frammi fyrir svona áskorun, velja að takast ekki á við hana og finna sér réttlætingar til að fría sig frá því.
Það þýðir að í samfélaginu er sú leið allt of oft valin að leyfa barnaníði að viðgangast  vegna þess að við erum með svo mikið af fullorðnu fólki sem treystir sér ekki til að takast á við það sem blasir við okkur í þessum málum.

Það á klárlega sinn þátt í því að í hópi 20 barna eru meiri líkur en minni að það sé verið að níðast, eða eigi eftir að níðast, á a.m.k. 3 til 4 þeirra. Líka það að ef manneskja sem beitir barnaníði er ekki stoppuð af eru meiri líkur en minni að hún beiti fleiri börn níði. Þannig að, ef við samþykkjum þá nálgun að ekki skuli segja til barnaníðinga af  meintri tillitssemi við aðstandendur þeirra þá er það á kostnað þeirra barna sem eiga eftir að lenda í þeim níðingum.

Sjúkdómsvæðingin í kringum barnaníðinga er engum góð. Ekki þeim sem meiða börn og fá þá ekki tækifæri til að axla ábyrgð á sjálfum sér í því sambandi og alls ekki þeim sem sitja uppi með þá ábyrg fyrir þá. Við höfum sagt það áður og endurtökum hér að ef það er sjúkdómur sem framkallar ofbeldisverk barnaníðinga þá inniheldur sá sjúkdómur mikinn, viðvarandi skipulagshæfileika og einbeittan brotavilja. Barnaníð er glæpur og ef við fullorðna fólkið hættum ekki að sjúkdómsvæða þann glæp þá höldum við áfram að samþykkja það að sum börn séu bara svo óheppin að sitja uppi með að sinna svona sjúklingum.

Við endurtökum það enn og aftur að við þurfum að gera skýran greinarmun á heimi barna og fullorðinna til að geta í alvöru verndað börn. Það reynist mörgum erfitt og þess vegna er svo gott að í dag er hægt að fá leiðsögn í að standa undir því nafni að bera ábyrgð á börnum.  

Við ítrekum líka hversu frábært það er að vera það fullorðinn að geta sett utan um sig girðingar varðandi það hverjir fá að umgangast okkur og gerum þá kröfu að fullorðið fólk leggi sig í líma við að verja öll börn í kringum okkur á sama hátt. Þess vegna getum við alls ekki samþykkt fyrirgefningu ef hún felur jafnframt í sér meðvirkni.

Þá verður ekki komist hjá því að benda á að tilhneigingin til að gera lítið úr níðingsverkum fólks sem er dáið stendur ekkert undir sér og það er einfaldlega ekki á hendi þolenda að semja grafskrift ofbeldismanna sinna. Þeir hafa sjálfir skrifað sína sögu og henni verður ekki breytt hvort sem þeim er gefið nöfn í bókum sem um þá eru skrifaðar eður ei. Er ekki einmitt rökrétt að álykta sem svo að Gróu á Leiti sé gefið rækilega undir fótinn ef söguþráður slíkra bóka byggir á hálfkveðnum vísum?         

Ingibjörg og Sigurlína

Friday, May 27, 2011

Pælingar um fyrirgefningu


Okkur langar að þakka Heiðu fyrir eftirfarandi innlegg í umræðuna um barnaníð: http://www.bleikt.is/Fjolskyldan/Lesagrein/fyrirgefningeittoflugastaverkfaerifornarlamba/


Að sumu leyti getum við ekki verið meira sammála því sem hún er að segja á meðan annað fær hárin á höfðinu hreinlega til að rísa. En það sem við þurfum svo sárlega er umræða, upplýsingar og enn meiri umræða um barnaníð og annað ofbeldi. Með því náum við skilningi á eðli þessa ljóta glæps, getum frekar leitt þá áfram sem fyrir honum verða, sett upp girðingar fyrir börn til að draga úr líkum þess að þau verði þolendur glæpsins og látið þá sem fremja barnaníð axla á því ábyrgð.      


Orð í heimi fullorðinna
Heiða talar um fyrirgefningu sem eitt öflugasta vopn sem nokkurt fórnarlamb ofbeldis getur beitt fyrir sig. Fyrirgefningin sem slík er öflug leið þar sem hún á við en við þurfum alltaf að spyrja hvaða meining er á bak við orðið þegar það er notað og í þágu hvers. Það er t.a.m. dásamleg frelsisstund fyrir okkur, sem höfum lifað af svona ofbeldi, þegar við náum því að umvefja barnið í sjálfum okkur með ást og hlýju í þeim skilningi að ofbeldið sem við upplifðum sem börn hefur akkúrat ekkert með okkur sjálf að gera. Það er engin smá sjálfsfyrirgefning fólgin í því og það er hún sem er grunnurinn að frelsinu.

En þessi frelsisstund á sér því miður yfirleitt ekki stað fyrr en við erum orðin fullorðin og búin að fá aðstoð við að átta okkur á þeim staðreyndum. Börn lifa nefnilega í heimi þar sem fullorðnir ákveða leikreglurnar og setja leiðardæmið í samskiptum. Barn sem lifir í umhverfi þar sem hætta er á ofbeldi sem fullorðið fólk leitast hvorki við að koma í veg fyrir né stöðva, hefur ekkert val eða vald til að velja fyrirgefningu og frelsi. Það einfaldlega leitar leiða til að lifa ofbeldið af. Talið er að 17% íslenskra barna séu svo óheppin að lenda í barnaníði og undantekningarlítið taka þau sjálf ábyrgð á ofbeldinu. Hvernig ætli þessi börn upplifi umræðu um fyrirgefningu?

Ef við skiljum Heiðu rétt, þá var hún fullorðin þegar hún valdi fyrirgefninguna sem sína leið. Það er rökrétt og um leið ákaflega mikilvægt að fólk átti sig á  muninum á heimi og valdi barna og fullorðinna þegar kemur að þessari umræðu.

Pirrandi krafa um að gerendur taki ábyrgð á eigin gjörðum  

Heiða kemur jafnframt inn á að henni finnist umræðan um kynferðisofbeldi einsleit og einkennast af því að fórnalömb séu þar ofan á í þeirri þörf að fá viðurkenningu á hegðun gerenda. Við skiljum vel að hún sé pirruð á þeirri umræðu. Við erum það líka en mjög líklega af öðrum ástæðum.

Það er svo ofboðslega stutt síðan samfélagið fór að leyfa umræðu um ofbeldi gegn börnum og umræðan sem slík er mörgum erfið. Væntanlega að stórum hluta vegna þess að flestir þeir sem meiða börn tengjast þeim á einhvern hátt. Þar sem börnin finna sig síðan sjaldnast örugg til að segja frá ofbeldinu, kemur það yfirleitt ekki á yfirborðið fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum seinna að ábyrgðinni sé loks skilað þangað sem henni ber að vera. Þá standa aðrir fullorðnir í kringum þolendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu gagnvart ofbeldinu og þeim sem því beita. Fólki sem það hefur treyst, þykir jafnvel mjög vænt um og tengist hagsmunaböndum. Þetta eru vondar aðstæður sem enginn vill vera í. Staðreyndirnar sýna  okkur líka að allt of margir sem standa frammi fyrir svona áskorun, velja að takast ekki á við hana og finna sér réttlætingar til að fría sig frá því. Þá kemur oft upp sú krafa að í stað þess að láta og leyfa gerendum að axla sína ábyrgð, að þolendunum er stillt upp, loks þegar þeir tala, og sett er á þá sú krafa að fyrirgefa og gleyma eða halda sig úti ella. Ekki fullorðinsleg nálgun finnst okkur og getur ekki leitt til annars en að þolendur sem eru farnir að vinna í sjálfum sér haldi mjög á lofti þeirri kröfu að ofbeldinu gegn þeim linni.

Eins og áður segir þá er svo stutt síðan það mátti ekki einu sinni segja „barnaníð“ upphátt. Við erum komin vel af stað með vinnu fyrir konur sem þolendur, mjög stutt með karla sem þolendur og skelfilega stutt í forvarnarstarfi gagnvart börnum sem eru í hættu þegar kemur að barnaníði. Sífellt háværari krafa um að fórnarlömb fái viðurkenningu á hegðun gerenda segir okkur að það styttist í að við breytum því leiðardæmi og förum að beina athyglinni í auknum mæli að gerendum og öllu fullorðna fólkinu sem í raun leyfir barnaníði að viðgangast með því að treysta sér ekki til að takast á við það sem blasir við okkur í þessum málum. Þangað til verður umræðan líklega áfram einsleit og örugglega bæði vond og pirrandi fyrir marga.           


Val og vald fullorðinna

Heiða talar líka um að henni finnist of margir nota sára reynslu til að takast ekki á við eigið líf og noti jafnvel „aumingja þú“ viðhorfið, sem virðist vera samþykkt í samfélaginu, sem afsökun fyrir röngum ákvarðanatökum og því sem miður fer í eigin lífi. Mikið ofboðslega erum við sammála henni þar. En við endurtökum þetta með hversu mikilvægt það er að gera greinarmun á því vali og valdi sem barn og fullorðið fólk hefur völ á. Skelfileg reynsla í æsku tekur ekki frá okkur ábyrgð á eigin lífi þegar við vöxum upp og við eigum heldur ekki að samþykkja slíkt. Það er nefnilega nákvæmlega þá sem við getum farið að axla eigin ábyrgð, taka ákvarðanir að okkar vali og standa undir afleiðingum þeirra.

Ef líf okkar á fullorðinsárum einkennist af ótta, kvíða, reiði, biturð, hræðslu við að láta annað fullorðið fólk axla sína ábyrgð, annarskonar meðvirkni eða bara upplifun sem hamlar okkar eigin þroska og flæði þá eru það augljósar vísbendingar um að eitthvað sé ekki að gera sig í okkar eigin lífi. Þá er það á okkar ábyrgð að leiðrétta kúrsinn, átta okkur á hvað gerir okkur að því sem við erum og hvað við þurfum að gera til að geta verið það sem við viljum vera og bara notið lífsins sem fullorðið fólk. Ef ekki fyrir okkur sjálf, þá fyrir börnin okkar og annarra því við erum enginn smá áhrifavaldur í þeirra lífi... fram á þeirra fullorðinsár. Frelsið sem fylgir svona sjálfsábyrgð er undursamlegt. Sérstaklega þegar fólk áttar sig á að annarra fullorðinna manna ótti við að horfast í augu við sig sjálft er þeirra eigin ótti, ekki okkar, auk þess sem mikla hjálp er að fá í dag fyrir þá sem það velja.


Að setja upp girðingar í samskiptum

Heiða fann sjálfsábyrgð sína í gegnum fyrirgefninguna og læknaði sjálfa sig með því að sækja hana til sjálfrar sín, fyrirgefa sjálfri sér og öðrum. Hún tekur það jafnframt skýrt fram að með því sé hún ekki að samþykkja ofbeldið sem hún var beitt sem barn. Við vorum mjög fegnar að lesa þá setningu þótt Það fylgi reyndar ekki skýring á því hér hvað hún á við með því. Við höfum allt of oft heyrt fólk nota þetta orð hreinlega til að fría sig ábyrgð á því að taka afstöðu og erfiðar ákvarðanir. Það finnst okkur ekki mjög fullorðins. það er nefnilega ákaflega þunn lína á milli fyrirgefningar og meðvirkni og hún þarf að vera okkur ljós þegar við notum orðið fyrirgefning.

Þegar við erum meðvirk gagnvart fólki sem beitir ofbeldi getur það t.d. birst í því að við samþykkjum hegðun þess með því að taka ábyrgðina á okkur sjálf, setjum hana á aðra eða aðstæður, gerum lítið úr vægi ofbeldisins, teljum okkur trú um að það sé betra fyrir aðstandendur að láta kyrrt liggja, afneitum ofbeldinu eða gerum ekki kröfur á að það stoppi, afgreiðum það sem búið og gert, reiknum ekki með því að ofbeldismanneskjan sé að beita aðra ofbeldi og neitum því jafnvel þótt það blasi við okkur og svo framvegis og framvegis. Í meðvirkni felst því fyrst og fremst mismikil eftirgjöf en ekki krafa um að fullorðið fólk taki ábyrgð á sjálfu sér. Í fyrirgefningu felst hins vegar bæði mikil heilun eins og áður hefur komið fram og krafa um ábyrgð á fullorðið fólk. Ábyrgðin nær ekki síst til þess að girða milli þeirra sem við erum að fyrirgefa fyrir okkur sjálf og mögulegra fórnarlamba þeirra.

Heiða talar einmitt um í sambandi við hennar frelsi að hún sé mjög vandlát á þá sem hún velur að hafa í kringum sig og að það nái jafnt yfir þá sem eru henni blóðskyldir og ekki. Það er frábært að vera það fullorðinn að geta sett utan um sig girðingar á þennan hátt og valið hverjir eru velkomnir þar inn og hverjir ekki. Væri ekki dásamlegt ef við legðum okkur mikið fram um að verja öll börn í kringum okkur á sama hátt?   

Þegar fólk velur sér afstöðu
Talandi um girðingar í samskiptum þá kemur hér að þeim hluta þar sem við erum ákaflega ósammála Heiðu. Þeim þar sem hún talar um að hún sjái ekki tilganginn í að gefa uppi hverjir ofbeldismenn úr hennar barnæsku eru. Hún velji þá afstöðu af virðingu við þeirra nánustu og rökstyður það með því að segja að hún vilji ekki særa börn þeirra og fjölskyldur. Þetta eru skelfilega vond skilaboð til allra barna og fullorðinna sem búa við ofbeldi og líka til aðstandenda ofbeldismanna. Af hverju? Vegna þess að enn og aftur er athyglinni beint að þolendum og aðstandendum ofbeldismanna í stað þeirra sjálfra og virðing og líðan þessa fólks sett á ábyrgð þolenda. Gjörningurinn sjálfur er um leið kæfður í því rugli.

Við þorum að fullyrða að barn sem nú þegar telur sig eiga skilið ofbeldi sem það býr við er fljótt að grípa þessa umræðu til að staðfesta þá ábyrgð sína og sektarkennd.

Orðræðan virðist ekki ennþá ná utan um þá staðreynd að þegar fólk velur (takið eftir: velur) að níðast á börnum er ofbeldismaðurinn um leið líka að velja að meiða alla sem tengjast  honum tilfinningaböndum. Það er þá sem glæpurinn er framinn en ekki þegar sagt er frá honum, hvort sem sú tjáning kemur fram strax eða 50 árum seinna. Sá sem segir frá glæpnum er ekki sá seki, heldur sá sem framdi hann og sökin felst heldur ekki í kröfunni um að ofbeldismaðurinn axli ábyrgð á eigin glæp. Er þetta ekki mjög skýrt? Segjum að löngu týndur ættingi þinn, sem allir eru búnir að afskrifa,  finnist grafinn í garðinum þínum 30 árum eftir að hann hvarf. En um leið og líkið finnst fara af stað kyrfilega bældar tilfinningar og minningar sem leiða fólk að hinum rétta söguþræði og morðingjanum. Hvað skal þá gera?  

Tökum afstöðu út frá staðreyndum
Þetta er ekkert grín enda er barnaníð grafalvarlegur glæpur og staðreyndirnar tala sínu máli. Þær segja að ef við höfum 20 börn fyrir framan okkur séu meiri líkur en minni að það sé verið að níðast, eða eigi eftir að níðast, á a.m.k. 3 til 4 þeirra. Staðreyndirnar segja líka að ef manneskja sem beitir barnaníði er ekki stoppuð af eru meiri líkur en minni að hún beiti fleiri börn níði. Þannig að, ef við samþykkjum þá nálgun að ekki skuli segja til barnaníðinga af  meintri tillitssemi við aðstandendur þeirra þá er það á kostnað þeirra barna sem eiga eftir að lenda í þeim níðingum.

Hugsanlega er hægt að fyrirgefa barnaníð, á þann hátt að hlífa ofbeldisfólkinu við að taka ábyrgð á gjörðum sínum, ef þolandinn veit fyrir víst að níðið sem hann upplifði hafi byrjað og endað í honum sjálfum. Eða ef hann veit fyrir víst að búið er að setja upp girðingar í kringum þau börn sem gerandinn hefur aðgang að. Ef ekki, nýtur ofbeldismaðurinn vafans en ekki börnin og þá erum við líka að tala um meðvirkni en ekki fyrirgefningu og alls ekki tillitssemi.

Leið meðvirkninnar er svo sem ekki ný nálgun þegar kemur að þessum glæpum heldur er það leiðardæmið sem hingað til hefur verið ofan á. Leiðardæmi sem er ekki að virka til að vernda börn fyrir barnaníði og þarf að skipta út.

Veljum að vernda börn gegn ofbeldi

Heiða tjáir sig einlæglega um það hvernig hún segist elska móður sína skilyrðislaust m.a. vegna þess að hún veit að þegar móðirin beitir ofbeldi með orðum er hún að lýsa eigin líðan, ekki hennar. Heiða gefur líka i skyn að móðir hennar sé geðveik og ekki ábyrg gjörða sinna. Í því ljósi hefði einhver átt að grípa inn í aðstæður Heiðu sem barns, en gerði augljóslega ekki. Í dag lifir Heiða sjálfstæðu lífi sem fullorðin manneskja, óháð ábyrgð eða áhrifum móður sinnar nema hún kjósi það sjálf. Hún hefur því val um að taka þessa æðrulausu afstöðu til móður sinnar sem fullorðin manneskja.

En í afstöðunni felst jafnframt sú ábyrgð að ef einhver börn eiga enn sitt undir móður Heiðu, að hún leitist við að girða fyrir að þau verði þolendur ofbeldis móðurinnar, ef það er hennar stíll að beita slíku. Ef Heiða gerir það ekki, einkenndist ást hennar á móður sinni ekki af æðruleysi heldur ábyrgðarleysi. Enn og aftur er það vegna þess að börn hafa ekki val um að velja sínar aðstæður og framvindu á sama hátt og við fullorðna fólkið getum gert og eigum að gera í eigin lífi. Þess vegna er það skýlaus réttur barna að fullorðið fólk verndi þau og tali þeirra máli.

Ef við metum það sem svo að fyrirgefningin sé leiðin til að bjarga okkur sjálfum í lífinu, þá er það bara flott, svo framarlega sem það er ekki á kostnað þeirra barna sem lifa við ofbeldi og hafa ekki val um að komast út úr því. Við getum einfaldlega ekki leyft okkur að gera okkar fullorðinsaðstæður að þeirra. Þegar kemur að barnaníði erum við að tala um mörg börn og fæst þeirra segja frá. Ef við fullorðna fólkið fyrirgefum án ábyrgðar á þessum börnum, hvers eiga þau þá að gjalda og hver situr uppi með ábyrgðina?  

Takk aftur Heiða fyrir þitt innlegg og upp með umræðuna um barnaníð og annað ofbeldi.
Lifum heil,
Ingibjörg og Sigurlína

Saturday, May 7, 2011

Kerfið gengst við því að barnaníðingar séu hættulegir umhverfinu

Það er frétt í Pressunni í gær um að manneskja sem verið hefur að níðast kyn­ferðis­lega á börnum hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á þeim grundvelli að hún sé hættuleg umhverfinu.
Vá þetta er ný setning frá kerfinu þegar kemur að barnaníðingum. Hjörtu okkar gleðjast, fagna áfangasigri og trúa að það styttist í fleiri framfaraskref frá þessu sama kerfi.
Fjölmiðlar fjalla líka um það í dag hvernig Þjóðkirkjan er loks að reyna að standa í lappirnar þegar kemur að kynferðisníði og taka ábyrgð á ofbeldisfullri þöggun á þeim bæ. Við reiknum með að réttarkerfið fylgist með og tileinki sér eitthvað af þessum vinnubrögðum svo það geti staðið siðferðislega undir því nafni sem því hefur verið gefið.
Þegar kemur að brotum Ægis Geirdal þá eru það svo margir sem þekkja til þeirra og enn fleiri sem efast ekki um sannleiksgildi þeirra. Það sem vantar upp á er að kerfið, sem við höfum búið okkur, taki það alvarlega, lagi sig að því að geta fylgt upplýsingunum eftir og gangi hreinlega á eftir því að fullorðið fólk segi satt þótt það sé kúgað og hrætt. Allt eins og væntanlega væri gert ef um líkamsmorð væri að ræða. Hvers vegna? Vegna þess að á bak við alla þessa sögu eru manneskjur sem verið er að brjóta á og fórna. Hugsið ykkur börnin sem eiga engan séns á að stíga fram á meðan fullorðna fólkið hefur ekki kjarkinn til þess.
Ægir Geirdal er svo sannarlega hættulegur umhverfinu og níðingsslóð hans er svo auðrekjanleg að það er í raun með ólíkindum að það skuli ekki vera búið að stöðva manninn. Þar til það gerist valsar hann um samfélagið í fullum lagalegum rétti, samfélagi sem tiplar á tánum framhjá níðingsslóð hans og viðheldur með því skelfilegu ofbeldi.
Í janúar á þessu ári var okkur, sem tölum hátt um sannleikann í kringum Ægi, hótað dómsmáli. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Það er vel hægt að ímynda sér að það sé vegna þess að með því að láta reyna á slíkt tekur ofbeldismaðurinn stóran séns á að fletta endanlega ofan af sjálfum sér og missa tökin á meðvirknihópnum í kringum sig. Þöggunarmúrnum sem hann hefur hlaðið. Úbbs og þá gæti hann staðið frammi fyrir því að þurfa að taka sjálfur ábyrgð á ofbeldisgjörðum sínum. Stór séns fyrir mann sem hefur ekki hikað við að fara í mál við allt og alla í gegnum tíðina, nema þá sem í meira en 20 ár hafa reynt að fá samfélagið til að taka við réttum upplýsingum um hann.
Auðvitað eru það vondar fréttir í sjálfu sér að eftirlifendur ofbeldismanna eins og Ægis skuli gleðjast yfir hótunum um að verða dregnir fyrir dóm fyrir að segja satt. Þannig útspil væri í raun samt einungis viðbót við þær hindranir, áhugaleysi og ofbeldi sem hefur mætt okkur við að fá samfélagið til að hlusta á þessa ljótu sögu. Dómsmálshótunum er líka tekið þannig og í þeirri von að kannski væru þær skrefið sem vantar upp á til að loks verði tekið í hnakkadrambið á barnaníðingnum Ægi Geirdal á þeim forsendum að hann er hættulegur umhverfi barna.
Við trúum því í einlægni að með aukinni meðvitund og virkri baráttu allra þeirra sem í alvöru stendur ekki á sama um þessi mál munum við sigla inn í tíma þar sem svo sannarlega verður raunhæft að segja: „fólk í okkar samfélagi kemst ekki upp með að níðast á börnum, sama hvaða brögðum það beitir.“
Góðu fréttirnar eru áfangasigrarnir sem eru að nást á þessari leið og þeim fögnum við innilega.   
Bjartsýniskveðjur inn í sumarið,
Ingibjörg og Sigurlína