Takk fyrir umræðuna um barnaníð. Níðið er raunverulegt í heimi barna og við þurfum að treysta okkur til að tala um þá staðreynd og taka á henni.
Við endurtökum að það geti vel verið flott fyrir fullorðið fólk að velja fyrirgefningu sem sína leið að eigin frelsi, ef það vill, svo framarlega sem það er ekki á kostnað varnarlausra barna. Það er endalaust mikilvægt að fólk átti sig á muninum á heimi og valdi barna og fullorðinna þegar kemur að þessari umræðu og því hver munurinn er á fyrirgefningu og meðvirkni eins og áður hefur komið fram.
Við ítrekum líka það sem við segjum í okkar pælingum um fyrirgefningu í kringum barnaníð að börn lifa í heimi þar sem fullorðnir ákveða leikreglurnar og setja leiðardæmið í samskiptum. Barn sem lifir í umhverfi þar sem hætta er á ofbeldi sem fullorðið fólk leitast hvorki við að koma í veg fyrir né stöðva, hefur ekkert val eða vald til að velja fyrirgefningu og frelsi. Fram á fullorðinsár leitar það einfaldlega leiða til að lifa ofbeldið af og það er fyrst þá sem við öðlumst alvöru val og vald til að taka ábyrgð eigin lífi. Talið er að það séu um 17% íslenskra barna sem er svo óheppin að búa við þessar aðstæður.
Við endurtökum líka að flestir þeir sem meiða börn tengjast þeim á einhvern hátt. Stundum eru það foreldrar þessara barna. Tilhugsunin um það er alveg skelfilega vond staðreynd sem óskandi væri að gæti bara horfið. En hún gerir það ekki og það er mörgum allt of dýrkeypt ef við höldum áfram að tipla á tánum í kringum þessi mál eins og köttur um heitan graut.
Forvarnarstarf fyrir börn í tengslum við kynferðislegt ofbeldi er sem betur fer vaxandi og fleiri börn en áður sem hafa kjark til að segja frá. Ennþá lifum við samt í heimi þar sem börnin finna sig sjaldnast örugg til að segja frá ofbeldi sem þau lifa við og hafa heldur ekki forsendur til þess. Því er það skelfilega oft sem ábyrgðinni er ekki skilað þangað sem hún á heima fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum seinna. Þá standa aðrir fullorðnir í kringum þolendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu gagnvart ofbeldinu og þeim sem því beita. Fólki sem það hefur treyst, þykir jafnvel mjög vænt um og tengist hagsmunaböndum. Þetta eru vondar aðstæður sem enginn vill vera í. Enn og aftur segja staðreyndirnar okkur líka það að allt of margir sem standa frammi fyrir svona áskorun, velja að takast ekki á við hana og finna sér réttlætingar til að fría sig frá því.
Það þýðir að í samfélaginu er sú leið allt of oft valin að leyfa barnaníði að viðgangast vegna þess að við erum með svo mikið af fullorðnu fólki sem treystir sér ekki til að takast á við það sem blasir við okkur í þessum málum.
Það á klárlega sinn þátt í því að í hópi 20 barna eru meiri líkur en minni að það sé verið að níðast, eða eigi eftir að níðast, á a.m.k. 3 til 4 þeirra. Líka það að ef manneskja sem beitir barnaníði er ekki stoppuð af eru meiri líkur en minni að hún beiti fleiri börn níði. Þannig að, ef við samþykkjum þá nálgun að ekki skuli segja til barnaníðinga af meintri tillitssemi við aðstandendur þeirra þá er það á kostnað þeirra barna sem eiga eftir að lenda í þeim níðingum.
Sjúkdómsvæðingin í kringum barnaníðinga er engum góð. Ekki þeim sem meiða börn og fá þá ekki tækifæri til að axla ábyrgð á sjálfum sér í því sambandi og alls ekki þeim sem sitja uppi með þá ábyrg fyrir þá. Við höfum sagt það áður og endurtökum hér að ef það er sjúkdómur sem framkallar ofbeldisverk barnaníðinga þá inniheldur sá sjúkdómur mikinn, viðvarandi skipulagshæfileika og einbeittan brotavilja. Barnaníð er glæpur og ef við fullorðna fólkið hættum ekki að sjúkdómsvæða þann glæp þá höldum við áfram að samþykkja það að sum börn séu bara svo óheppin að sitja uppi með að sinna svona sjúklingum.
Við endurtökum það enn og aftur að við þurfum að gera skýran greinarmun á heimi barna og fullorðinna til að geta í alvöru verndað börn. Það reynist mörgum erfitt og þess vegna er svo gott að í dag er hægt að fá leiðsögn í að standa undir því nafni að bera ábyrgð á börnum.
Við ítrekum líka hversu frábært það er að vera það fullorðinn að geta sett utan um sig girðingar varðandi það hverjir fá að umgangast okkur og gerum þá kröfu að fullorðið fólk leggi sig í líma við að verja öll börn í kringum okkur á sama hátt. Þess vegna getum við alls ekki samþykkt fyrirgefningu ef hún felur jafnframt í sér meðvirkni.
Þá verður ekki komist hjá því að benda á að tilhneigingin til að gera lítið úr níðingsverkum fólks sem er dáið stendur ekkert undir sér og það er einfaldlega ekki á hendi þolenda að semja grafskrift ofbeldismanna sinna. Þeir hafa sjálfir skrifað sína sögu og henni verður ekki breytt hvort sem þeim er gefið nöfn í bókum sem um þá eru skrifaðar eður ei. Er ekki einmitt rökrétt að álykta sem svo að Gróu á Leiti sé gefið rækilega undir fótinn ef söguþráður slíkra bóka byggir á hálfkveðnum vísum?
Þá verður ekki komist hjá því að benda á að tilhneigingin til að gera lítið úr níðingsverkum fólks sem er dáið stendur ekkert undir sér og það er einfaldlega ekki á hendi þolenda að semja grafskrift ofbeldismanna sinna. Þeir hafa sjálfir skrifað sína sögu og henni verður ekki breytt hvort sem þeim er gefið nöfn í bókum sem um þá eru skrifaðar eður ei. Er ekki einmitt rökrétt að álykta sem svo að Gróu á Leiti sé gefið rækilega undir fótinn ef söguþráður slíkra bóka byggir á hálfkveðnum vísum?
Ingibjörg og Sigurlína