Monday, January 30, 2012

Ofbeldi er aldrei einkamál

Umræða um hverskonar ofbeldi er ekki einkamál heldur samfélagsmál. Barn sem verður fyrir ofbeldi hefur ekkert val um að verja sig, oft býr það undir sama þaki og kvalarinn sinn. þess vegna er það skylda okkar fullorðna fólksins að vernda börn og segja frá vitum við af barnaníði í samfélagi okkar, hvar og hvenær sem er. Hefði haldið að það væri einnig skylda eftirlitsaðila að kanna slíkar ábendingar komi þær fram. Komast mætti hjá mörgu bölinu með því að útrýma meðvirkninni. Þekkt er hve gerandi í ofbeldismálum hefur sterk tök á sínum nánustu, svo sterk að hann þarf aldrei að verja sig sjálfur, ástvinir og ættingjar gera það oftast óumbeðnir.

Bestu kveðjur,
Sigurlína

Ég átti notalegan endurfund við æskuna í gær

Ég hef gert það nokkrum sinnum síðustu ár að keyra um gamla hverfið mitt á Holtinu í Garðabæ. Í gær lagði ég bílnum svo í fyrsta sinn, gekk um Laufásinn og skoðaði gamla húsið mitt frá öllum hliðum. Það var æðislegt og kviknuðu endalausar minningar, mest góðar minningar. Gekk svo langt að ganga fyrir hornið og horfa á dyrnar þar sem ofbeldismaðurinn sat svo oft fyrir mér, barninu. Það var eina skiptið sem hjartað fór að slá hratt og óttinn gerði vart við sig. En ég þurfti ekki að flýja og gat leyft minningunum að flæða. Gat séð elsku Ingu litlu samanhnipraða af ótta í þessum aðstæðum, tók hana í fangið og umvafði hana endalausri ást og virðingu. Ég gat ekki tekið sársaukann í burtu en var samt heil og óhult, umvafin ást og hlýju.

Þvilíkt frelsi og þvílík væntumþykja sem ég finn til staðarins þar sem ég átti líf mitt í svo mörg ár. Líf sem ég var búin að stroka út úr minninu. Sá að einn af gömlu nágrönnunum á ennþá gamla saap bílinn sem hann átti í gamla daga, var inni í skúr, ekki á númerum og virðing yfir bæði honum og gamla manninum. Ég sagði ekki til mín. Fannst nóg í þessari lotu að ganga um og ábyggilega einhverjir sem hafa undrast yfir manneskjunni sem var að sniglast um hverfið, farandi inn á lóðir og rekandi nefið yfir girðingar:) Ég tók meira að segja eina mynd af gamla húsinu mínu og er ánægð með hana.

Ég hef svo oft heyrt sagt að það sé ekki hægt að taka upp gömul ofbeldismál gegn börnum þar sem það sé svo erfitt að muna og raða saman því sem gerðist fyrir löngu. Þetta er ekki rétt. Eins og hjá mér gerist oft einmitt það öfuga. Við gleymum til að lifa af og þau okkar sem ná síðan að verða nógu sterk til að átta okkur á sakleysi okkar fáum svo minningarnar til baka. Oft mjög nákvæmar. Sumar af þeim minningum sem komu til mín í gær voru að skila sér til baka eftir meira en 40 ár í gleymsku ♥

Bestu kveðjur,
Ingibjörg

Wednesday, January 25, 2012

Yfirlýsing vegna stefnu Ægis Geirdal á Pressuna

Ægir Geirdal getur ekki lengur tryggt sér þögn í kringum ofbeldisslóð sína. Ekki heldur þótt honum takist að hafa fé af fólki og mögulega fjölmiðlum í gegnum réttarkerfi sem kann því miður ekki enn að taka á glæpamönnum eins og honum.

Ægir hefur þó ekki enn staðið við þær hótanir sínar að stefna okkur systrum fyrir það sem vefmiðillinn Pressan hefur haft eftir okkur. Ef við fengjum á okkur svona skelfilegar ásakanir eins og við berum á Ægir og vissum í hjarta okkar að þær væru ósannar, þá myndum við ekki hika við að leita til dómsstóla til að verja okkur og þá sem það meiddi. Sem betur fer er sá réttur nefnilega til staðar saklausum borgurum til varnar. Hvað kemur þá í veg fyrir að Ægir leiti þess réttar síns gagnvart okkur sem hann segir ljúga upp á sig níðingsverk? Hann veit einfaldlega upp á sig þessar sakir og með því að stefna okkur systrum fyrir dómstóla fyrir ærumeiðingar tæki hann mikla áhættu á að þær verði endanlega staðfestar opinberlega.

Það er auðvitað ákaflega einkennilegt að standa frammi fyrir því að eiga yfir höfði sér að vera dreginn sem brotamaður fyrir dómstóla fyrir að segja satt. En ef það er eina leiðin til að gera Ægir ábyrgan fyrir gjörðum sínum þá tökum við stefnum fagnandi og hvetjum manninn eindregið til að leita dómstólaleiðarinnar til að verja mannorð sitt telji hann það í höndum einhverra annarra en hans sjálfs.

Ofbeldisásakanir á Ægir eru ekki nýjar af nálinni heldur áratuga gamlar
Ásakanir okkar gegn Ægi Geirdal litu alls ekki fyrst dagsins ljós árið 2010 heldur fyrir meira en 30 árum síðan.

• Árið 1977, þegar Ingibjörg var 16 ára, gerði hún sína fyrstu tilraun til að segja frá ofbeldi Ægis gagnvart henni sem barni. Hún gerði það innan fjölskyldunnar og móðir hennar gerði vanmáttuga tilraun til að fylgja málinu eftir inn í fjölskyldu Ægis. En Ingibjörg var fljót að þagna og kyngja skelfingunni aftur í það sinn því hún kunni hreinlega ekki að takast á við afneitunina og annað ofbeldi sem fór af stað í kringum hana við að reyna að opna þetta mál. Ægir sagði Ingibjörgu ljúga þessum ósköpum upp á sig en leitaði ekki leiða til að hreinsa sig af þeirri lygi.

• Að kvöldi 10. október 1986 varð Ingibjörg fyrir grófri líkamsárás á götu úti. Það mál var tekið alvarlega og var í höndum lögreglunnar. Minningarnar um hryllinginn úr Garðabæ hvolfdust yfir hana við þá erfiðu reynslu og hún lagði í fyrsta sinn fram vitnisburð fyrir lögregluna varðandi glæpi Ægis gegn henni í æsku. Lögreglan sagði málið fyrnt og fylgdi því ekki eftir. Það hefur því væntanlega ekki verið lagt undir Ægir þannig að í því tilfelli hefur hann líklegast ekki haft forsendur til að fara í mál til að verja æru sína.

• Í kringum 1990 fékk Ingibjörg í fyrsta sinn faglega aðstoð til að vinna sig í gegnum þær skelfilegu afleiðingar sem ofbeldið af hálfu Ægis hafði haft á líf hennar. Það var komið að því að hún þurfti að velja á milli þess að hverfa inn í heim sjúkdóma og sjálfsniðurrifs í öllu sínu formi eða að skila glæpnum heim til sín. Uppgjöf inn í heim geðveikinnar virtist jafnvel auðveldari því þar þyrfti hún allavega ekki að takast á við afneitun, reiði og annan ótta fólks sem kærði sig ekki um að horfast í augu við sannleikann úr Garðabæ. Ingibjörg hafði þó ennþá val og kaus að berjast fyrir tilverurétti sjalfrar síns og afkomenda sinna. Í kjölfar þess galopnaði hún þetta mál fyrir fjölskyldu Ægis. Þöggunarviðbrögðin voru svo heiftarleg að hún efaðist um tíma um að hún hefði styrk til að standa undir þeim. Hún fékk skjól í Kvennaathvarfinu í nokkra daga til að ná svefni og hvíld. Þar áttaði hún sig á að hennar eina vopn í þessu máli er sannleikurinn og að hann er það eina sem þarf. Eftir þetta hefur Ingibjörg aldrei efast um styrkinn sem þeim systrum hefur verið gefinn til að koma réttum upplýsingum um Ægir Geirdal á framfæri. Hann neitaði sök enn sem fyrr og hélt því m.a. fram að Ingibjörg væri að reyna hafa af sér peninga. Ægir leitaði samt ekki réttar síns hjá dómstólum til að freista þess að láta hana taka ábyrgð á því athæfi eins og hann hafði rétt til.

• Í framhaldi af því að búið var að galopna þetta mál settum við barnaverndarnefnd Kópavogs inn í það og Ingibjörg lagði þar fram vitnisburð sinn varðandi ofbeldi Ægis gegn sér í æsku. Sigurlína og Þórey Daníelsdóttir, nágranni okkar, sem Ægir hafði nauðgað hrottalega í æsku, m.a. á meðan barnungar dætur hans sváfu í næsta herbergi, voru líka tilbúnar að leggja sína vitnisburði varðandi Ægi fyrir barnaverndarnefndina. Þær voru hins vegar aldrei boðaðar þangað heldur var látið duga að heyra þeirra reynslu frá þriðja aðila (Ingibjörgu). Barnaverndarnefnd Kópavogs fylgdi þessu máli ekki eftir og Ægir leitaði heldur ekki réttar síns gagnvart dómstólum varðandi þær grafalvarlegu ásakanir sem voru enn og aftur lagðar fram gegn honum, í þetta sinn ekki eingöngu frá einni manneskju heldur þremur. Seinna kom í ljós að Ægir reyndi líka að ná Láru Dan, eldri systur Þóreyjar, en tókst ekki.

• Árið 1996 gerði RUV í fyrsta sinn Kastljósþátt sem fjallaði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og unglingum. Af því tilefni var haft samband við Ingibjörgu og hún beðin um að koma fram í þættinum til að lýsa sinni reynslu af slíku ofbeldi. Hún samþykkti það með þeim skilyrðum að hún kæmi fram undir nafni og mynd auk þess að segja rétt frá staðháttum í kringum ofbeldið. Það varð úr en Ingibjörg mátti ekki nefna ofbeldismanninn á nafn í þættinum. Þessari umfjöllun var varpað í sjónvarp allra landsmanna. Það var mjög auðvelt að rekja lýsingar Ingibjargar í þættinum til Ægis. Það var ekkert við vinnslu þáttarins, eða í því þakkarbréfi sem hún á frá þeim sem stóðu að honum, sem benti til þess að efast væri um að frásögn hennar væri sönn. Ægir Geirdal lagði ekki fram neina kæru til að verja mannorð sitt eftir þennan Kastljósþátt, hvorki gagnvart Ingibjörgu né RUV. Og þögnin í fjölskyldunni varð enn meira þrúgandi en áður.

• Árið 2002 var Ægir ákærður af Búnaðarbanka Íslands vegna brota sem hann framdi þegar hann starfaði þar sem næturvörður. Þegar Ægi braut á Ingibjörgu sem barni var hann mjög tæknivæddur og notaði ýmis tól við glæpi sína. Ingibjörg reiknaði með að við rannsókn á brotum Ægis gagnvart Búnaðarbankanum yrði farið í gegnum tölvur á hans vegum og hún bjóst við að lögreglan myndi finna þar gögn varðandi ofbeldisglæpi Ægis. Hún sendi því tölvupóst til lögreglunnar, þar sem hún benti á þennan möguleika í ljósi þeirra brota sem Ægir hafði beitt hana. Ingibjörg á afrit af þessu bréfi. Móttaka þess var staðfest en Ingibjörg var aldrei upplýst um hvort þessum vísbendingum var fylgt eftir af lögreglunni eða hvort Ægir var upplýstur um þetta bréf. Allavega lagði hann ekki fram neina kæru af þessu tilefni vegna ærumeiðinga Ingibjargar gagnvart sér.

• Árið 2006 fór Síminn í mikla auglýsingaherferð til að leggja áherslu á hlutverk fullorðna fólksins þegar kemur að öryggi barna á netinu. Meðal fyrirsæta í þessum auglýsingum var karlmaður sem var sláandi líkur Ægir Geirdal í útliti. Okkur systrum rann kalt vatn milli skinns og hörunds við tilhugsunina um möguleikann á að Ægir kæmi sér í auglýsingar um netöryggi barna og gengum því úr skugga um hvort svo væri. Við fengum þau svör að fyrirsætan væri ekki Ægir Geirdal, heldur maður svona líkur honum í útliti. Við vissum líka af því að Símanum barst nafnlaust bréf frá manneskju sem taldi að þessi fyrirsæta væri Ægir Geirdal sem hún varaði við vegna kynferðisbrota gegn börnum. Hvorki Þórey, Lára né við systur sendum þetta bréf, engin okkar hefur sett neitt nafnlaust frá sér varðandi Ægir Geirdal. Við vitum heldur ekki um nákvæmt innihald bréfsins en höfum vitneskju um hvaðan það kom og um að samskonar bréf hafi verið sent í Bláa Lónið, þar sem Ægir Geirdal vann á þessum tíma. Bréfið var ritað og sent af konu sem Ægir Geirdal beitti kynferðislegu ofbeldi í æsku. Þessi kona hefur ekki stigið fram með þær upplýsingar að öðru leyti en því sem hún gerði með þessum bréfum. Við vitum ekki hvort Síminn eða Bláa Lónið upplýstu Ægi um þessi bréf. Allavega vitum við ekki til þess að neinum hafi borist kæra vegna ærumeiðandi ummæla um Ægir Geirdal í kjölfar þessara atburða.

• Árið 2008 var haldin hátíð í tilefni aldarafmælis ömmu okkar, sem tengist jafnframt inn í fjölskyldu Ægis Geirdal vegna vensla við börn hans. Það er aðeins hluti af okkar systkinahóp sem hefur unnið sig frá því ofbeldi sem Ægir beitti mörg okkar á barnsaldri í Garðabæ. Við þetta veislutilefni var nú komið að næstu kynslóð í fjölskyldunni að vera stillt upp til að taka þátt í þeirri þöggun og öðru ofbeldi sem hefur viðgengist í kringum glæpaslóð Ægis. Þá fannst okkur systrum kominn tími á að senda fjölskyldubréf til að upplýsa fullorðna náskylda ættingja okkar um réttan söguþráð í kringum Garðabæ og gefa þeim a.m.k. tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun þegar kemur að fjölskylduleikjunum í kringum þá ljótu sögu. Fjölskyldubréfið var líka sent á Barnaverndarstofu og kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Þaðan komu engin viðbrögð og Ægir Geirdal lagði ekki fram kæru á okkur systur vegna upploginna ærumeiðandi ásakana við þetta tilefni.

• Árið 2010 bauð Ægir Geirdal sig síðan fram til Stjórnlagaþings og gerði sjálfan sig þar með að opinberri persónu. Það kom að sjálfsögðu aldrei til greina að við systur, með þær upplýsingar sem við höfum um Ægir, myndum halda okkur til hlés þegar þessi ofbeldismaður sóttist eftir að komast til embættisstarfa „fyrir börnin“ eins og stóð á skiltinu hans í Búsáhaldabyltingunni. Hið formlega kerfi samfélagsins hefur aldrei viljað taka við boltanum varðandi glæpi Ægis og okkur fannst það eins og að ætla að lemja hausnum við stein að reyna þá leið eina ferðina enn. Við ákváðum því að opna heimasíðu tileinkaða Ægi Geirdal og leggja þar fram upplýsingar um hann í þeirri von að fleirum en okkur misbjóði glæpaslóð hans og það að hann skuli ganga um óáreittur með þá slóð í eftirdragi. Það er orðið meira en ár síðan heimasíðan var opnuð og við vitum ekki til þess að nokkurt apparat í kerfinu hafi tekið við sér til að kanna sannleiksgildi þeirra grafalvarlegu ásakanna sem þar koma fram. En enn er reynt að þagga niður í okkur, núna í þeim búningi að Pressan hafi séð sér hag af því að skemma fyrir Ægi framboðið til stjórnlagaþings. Svo erum við systur að reyna að hafa af Ægi peninga enn og aftur, lásum við einhverstaðar haft eftir honum. Já, margur heldur mig sig. En Ægir ætlar ekki að mæta sannleikanum og standa undir sjálfum sér frekar en fyrri daginn, svo nú er það Pressan sem skal þaggað niður í.

Eins og sjá má á þessari upptalningu eru hinar alvarlegu ásakanir á hendur Ægi Geirdal svo langt í frá að vera nýjar af nálinni og hann heldur betur haft ástæðu til að leita réttar síns til að hreinsa mannorð sitt telji hann á sig logið eða vegið að sér og sínum vegna ummæla um hann. Að Ægir hafi ekki kosið að fara þá leið gegn okkur systrum segir fyrst og fremst til um hans eigin ótrúverðugleika í þessu máli öllu.

Ægir Geirdal er ekki þolandi, heldur gerandi
Það hefur enginn lagt æru Ægis Geirdal að veði nema hann sjálfur. Í tilviki Ingibjargar hóf hann þá ferð sumardag einn fyrir langa löngu þegar hann bauð henni sem barni með sér í ævintýraferð út í vestanvert hraunið í Garðabæ. Þar undi hún sér með þessum fullorðna vini sínum m.a. við að skoða smádýr í litlum pollum og fræðast um undur náttúrunnar. Þegar kom að nestisstundinni færðist fræðslan hins vegar að kroppi litla stúlkubarnsins, sem Ægir hafði náð út af fyrir sig. Undirtónn þeirrar fræðslu var að fá barnið til að afklæða sig í góða veðrinu til að veltast um og faðmast náttúrulega með honum í mosanum. Aðeins Ægir getur svarað því hversu umhugað honum var um eigin æru á því augnabliki og á árunum sem á eftir komu þar sem hann valdi að beita barnið miskunnarlausu og stigvaxandi ofbeldi.

Börnin fylgjast með og þeirra val er undir okkur komið
Ægir er líka sá eini sem getur svarað því hvernig hann velur þau börn sem hann kýs að níðast á og í hvaða tilgangi hann gerir það. En við systur vitum fyrir víst að þau börn voru mörg þegar við bjuggum í Garðabæ. Skelfilega fá þessara barna hafa náð að losa sig undan þeirri kló sem ofbeldismaðurinn Ægir hefur á þeim og umhverfi sínu almennt og ekkert okkar sem höfum stigið fram gerði það fyrr en við vorum löngu hætt að vera börn. Getið þið ímyndað ykkur stöðu þeirra barna sem eru læst í ofbeldismúr þessa manns núna þegar þau horfa upp á þá meðhöndlun sem við fullorðna fólkið höfum fengið fyrir að segja staðfastlega rétt frá? Getið þið að sama skapi gert ykkur í hugarlund hversu mikilvægt það er að allir fullorðnir sem eiga ofbeldissögu af hendi þessa manns eða hafa upplýsingar sem hjálpa við að rekja þá slóð sæki sér styrk til að stíga fram og hjálpa okkur að stöðva ofbeldið sem fylgir Ægir Geirdal?

Glæpaslóð Ægis er mjög auðrekjanleg
Suss, hótanir, stefnur, sektir, aðrar refsingar, sviðsetningar eða hvaða form sem þöggunar-tilraunirnar taka á sig gegn þeim sem skýra slóð Ægis munu heldur ekki láta sannleikann hverfa eða brotin fyrnast í raun. Réttum upplýsingum um Ægir Geirdal verður áfram komið á framfæri, hátt og skýrt, þar til þær verða teknar alvarlega í því réttarríki sem samfélag okkar er kennt við. Við höfum öll þær skyldur að sjá til þess að það réttarríki byggi á alvöru réttlæti og því að við séum að gera okkar besta til að vernda börn fyrir ofbeldismönnum eins og Ægi.

Glæpaslóð Ægis Geirdal er mjög auðrekjanleg um leið og til verður áhugi og opnaðar leiðir til að rekja hana. Maðurinn er sprelllifandi og hefur því tök og tækifæri á að svara fyrir og taka ábyrgð á þeirri brotaslóð sem honum fylgir. Við hvetjum alla þá sem hafa upplýsingar um þá slóð að stíga fram. Jafnframt hvetjum við alla þá einstaklinga sem líða vegna brota Ægis á einhvern hátt að leita styrks og stuðnings fyrir sig og sína.

Takk Pressufólk fyrir að taka ekki þátt í þögguninni í kringum Ægir Geirdal. Takk líka allir sem hafið stutt við bakið á okkur, stuðningurinn er mikils virði.

Ingibjörg og Sigurlína

Monday, January 23, 2012

Tilraun Ægis Geirdal til að þagga niður í fjölmiðlum

Kæru vinir og samferðamenn

Í fyrra hótaði Ægir að stefna okkur Dillu systur fyrir dómstóla. Við fögnuðum því mjög að fá loks tækifæri til að leggja þær upplýsingar sem við höfum um þennan mann inn í réttarkerfið, eins og sjá má á meðfylgjandi bloggfærslu. http://reynslusaga.blogspot.com/2011/01/stefnur.html

Stefnurnar eru ókomnar nú tæpu ári seinna. Hvað segir það okkur?

Næstkomandi miðvikudag mun hins vegar fara fram aðalmeðferð í meiðyrðamáli sem Ægir hefur höfðað gegn Pressunni, að því er okkur skilst vegna þess að þar á bæ hafi menn fundið hjá sér hvata til að skemma framboð saklauss borgara til Stjórnlagaþings.

http://www.dv.is/frettir/2011/10/20/aegir-geirdal-stefnir-ritstjora-pressunnar-thad-er-ekki-annad-haegt/

Við treystum okkur alveg til að umorða þetta. Ægir reynir enn og aftur að koma sér hjá því að mæta sannleikanum um sjálfan sig. Í þetta sinn með því að gera tilraun til að þagga niður í Pressunni fyrir að bera á borð fyrir almenning þau tíðindi af honum sem miðillinn taldi að sá sami almenningur hefði hag af að heyra.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig réttarkerfið tekur á þessu sjónarspili Ægis. Hver sem þöggunaraðferðin er hverju sinni, mun hún hins vegar aldrei gera sannleikann um manninn að lygi. Sá sannleikur mun halda áfram að heyrast, hátt og skýrt.

Að því sögðu biðjum við alla sem trúa okkur systrum varðandi glæpi Ægis að senda sannleikanum góða strauma niður í Héraðsdóm Reykjavíkur allan miðvikudagsmorguninn.

Virðingarfyllst,
Ingibjörg og Sigurlína