Ég hef gert það nokkrum sinnum síðustu ár að keyra um gamla hverfið mitt á Holtinu í Garðabæ. Í gær lagði ég bílnum svo í fyrsta sinn, gekk um Laufásinn og skoðaði gamla húsið mitt frá öllum hliðum. Það var æðislegt og kviknuðu endalausar minningar, mest góðar minningar. Gekk svo langt að ganga fyrir hornið og horfa á dyrnar þar sem ofbeldismaðurinn sat svo oft fyrir mér, barninu. Það var eina skiptið sem hjartað fór að slá hratt og óttinn gerði vart við sig. En ég þurfti ekki að flýja og gat leyft minningunum að flæða. Gat séð elsku Ingu litlu samanhnipraða af ótta í þessum aðstæðum, tók hana í fangið og umvafði hana endalausri ást og virðingu. Ég gat ekki tekið sársaukann í burtu en var samt heil og óhult, umvafin ást og hlýju.
Þvilíkt frelsi og þvílík væntumþykja sem ég finn til staðarins þar sem ég átti líf mitt í svo mörg ár. Líf sem ég var búin að stroka út úr minninu. Sá að einn af gömlu nágrönnunum á ennþá gamla saap bílinn sem hann átti í gamla daga, var inni í skúr, ekki á númerum og virðing yfir bæði honum og gamla manninum. Ég sagði ekki til mín. Fannst nóg í þessari lotu að ganga um og ábyggilega einhverjir sem hafa undrast yfir manneskjunni sem var að sniglast um hverfið, farandi inn á lóðir og rekandi nefið yfir girðingar:) Ég tók meira að segja eina mynd af gamla húsinu mínu og er ánægð með hana.
Ég hef svo oft heyrt sagt að það sé ekki hægt að taka upp gömul ofbeldismál gegn börnum þar sem það sé svo erfitt að muna og raða saman því sem gerðist fyrir löngu. Þetta er ekki rétt. Eins og hjá mér gerist oft einmitt það öfuga. Við gleymum til að lifa af og þau okkar sem ná síðan að verða nógu sterk til að átta okkur á sakleysi okkar fáum svo minningarnar til baka. Oft mjög nákvæmar. Sumar af þeim minningum sem komu til mín í gær voru að skila sér til baka eftir meira en 40 ár í gleymsku ♥
Bestu kveðjur,
Ingibjörg