Friday, October 26, 2012

Tekist á við skrímsli


Ringulreiðin í lífi mínu
Það var snemma að kvöldi haustið 1972 sem lítið stúlkubarn kom hlaupandi inn á lögreglustöðina i Hafnarfirði og kallaði hástöfum á hjálp. Skjálfandi á beinunum sagðist barnið vera nýsloppið frá ræningja sem hefði farið með það lengst út í hraun til að meiða það. Litla stúlkan grátbað lögguna um að ná skrímslinu...

Það kannast enginn við þessa frétt, er það? Enda er hún skáldskapur. Stúlkubarnið sjálft er samt engin lygi, ekki heldur frásögn þess um ræningjann, einungis þessi ferð barnsins á lögreglustöðina. Börn búa svo sannarlega við þann veruleika að vera meidd og þeim er rænt. En fæst þeirra segja frá fyrr en löngu, löngu seinna, sum aldrei. Það á allt við um litlu stúlkuna í þessari frásögn, nema þetta með að hún hafi aldrei sagt frá, hún gerði það að lokum. En að litla barnið hafi vogað sér að æða inn á lögreglustöðina eftir ránið til að kjafta frá? Aldrei, ekki heldur í mömmu sína og pabba. Þögult eins og gröfin, stútfullt af skömm og sjálfsásökunum yfir öllum ljótu glæpunum sem höfðu verið framdir á líkama þess og sál.

Með skrifunum um ferð barnsins á lögreglustöðina í Hafnarfirði lýkur öllum skáldskap í þessari skrímslafrásögn.

Seinna kjaftaði stúlkan í lögguna. Það var þegar hún var hætt að vera lítil og aðrir höfðu kallað á yfirvaldið henni til hjálpar eftir að hún hafði verið meidd úti á götu. Stóru stúlkunni leið hálf kjánalega yfir því hvað lögreglan tók allt í kringum götuárásina alvarlega og hún skammaðist sín einhvern veginn líka yfir því hvað allir voru reiðir vegna þess sem henni hafði verið gert. En svo fann hún í hjarta sér að þannig átti þetta að vera og áræddi loks að segja lögreglunni líka frá skrímslinu sem henni hafði tekist að losa sig við fjórtán árum áður. En lögreglunni komu þeir glæpir ekkert við. Ekki það að lögregluþjóninum fyndist ekki leitt að segja henni það, en það þýddi ekkert að vera að draga upp glæpi á barni svona löngu seinna. Þeir voru fyrndir að lögum. Fyrndir að lögum? Bara að líkami hennar hefði nú meðtekið þá laganna ógildingu. En litla barnssálin var þvert á móti að vakna og líkaminn að byrja að muna.  

Er til eitthvert heiti yfir ranglætið í réttlæti mannanna?             

Mér var gefin mikil þrautseigja og jákvæðni sem hélt mér lengi á floti í gegnum lífið. Alveg þangað til ég var orðin móðir og vissi svo vel í hjarta mínu hvaða hættur gátu legið í leyni fyrir litla saklausa barninu sem lífið hafði falið mér að gæta. Gat ég passað stelpuna mína? Ég sem hafði falið best af öllum þann viðbjóð sem var í mínu lífi þegar ég var lítil stelpa. Svo viss um það lengi að ég hefði átt þetta allt skilið og þessi trú sem ég var búin að meðtaka að það væri mitt að passa upp á að öðrum liði ekki illa út af sögunni minni. Vildi bara vera elskuð af fólkinu sem ég hélt að ég tilheyrði. En svo varð ég móðir og þá varð hún svo hávær röddin innan í mér sem minnti mig á þá gríðarlegu ábyrgð sem ég bar gagnvart litla stúlkubarninu mínu. Ég reyndi að þagga niður í þessari rödd og gerði eins og hinir, keypti hús og setti barnið mitt í hendurnar á öðrum á meðan ég vann fyrir reikningahrúgunni. En áhyggjurnar uxu, vanmátturinn vomandi yfir mér og það varð æ erfiðara að berjast gegn honum.

Dóttir mín var að verða þriggja ára þegar taugaáfallið helltist yfir mig. Svo gjörsamlega búin á því og umpóluð úr þeim öfgum að kunna ekki að vera á varðbergi í aðstæðum sem gátu verið mér hættulegar yfir í að vera alltaf á nálum allstaðar. Gat samt ekki bent á neitt eitt sem gerði lífið vont, leið bara illa og varð smám saman undirlögð af ótta. Eins og þegar smiðurinn sem ég var með í vinnu bankaði upp á. Systir mín opnaði dyrnar og þegar ég heyrði reiðina í rödd mannsins í fjarlægð, þá skreið ég inn í fataskáp, lokaði á eftir mér og hnipraði mig saman inni í horni skápsins skjálfandi úr hræðslu. Ég var að verða þrítug og réði ekkert við sjálfa mig lengur. Orðin berskjölduð fyrir gamla óttanum sem ég var búin að sitja á í öll þessi ár.  

Ég hélt að þetta væru endalokin. En þetta var byrjunin.  Í algerri uppgjöf opnaðist tækifærið mitt til að verða smám saman aftur að þeirri tilfinningaveru sem ég er fædd til að vera. Í langri og erfiðri vinnu í sálinni og eigin minningum gat ég loks farið að leyfa mér að muna og setja ævi mína í rétt samhengi.  Komin í aðstæður sem kölluðu á að ég segði frá lífshlaupi mínu. Ég kunni það hreinlega ekki. Sagði sögur sem mér höfðu verið sagðar eða talaði um sjálfa mig í þriðju persónu, eins og einhver annar hefði lifað lífi mínu. En í því góða skjóli sem ég var komin gat ég smám saman fikrað mig að mér sjálfri sem tilfinningaveru, aðgreint mig frá öðrum og tengt við sársaukann í kringum þær óhugnanlegu aðstæður sem litla barnið hafði lifað af. Litla barnið ég.

Mér var alltaf óhætt að tala um árásina sem ég varð fyrir úti á götu þegar var 26 ára og enginn varð mér reiður fyrir það. Enda maðurinn sem framdi þann glæp nafnlaust andlit sem engum tengdist og náðist aldrei. Það hefði verið mikill léttir fyrir alla ef ég hefði getað sett vanlíðan mína á þann atburð. Eða slysið sem ég varð fyrir í frystihúsinu þegar ég var sextán. Öllum fannst ég rosalega óheppin að verða fyrir þeirri reynslu og margir vildu tala um það við mig. En ég vissi vel að skelfingin sem var búin að yfirtaka mig, fullorðna manneskjuna, var komin aftar úr lífi mínu. Hún átti heima í samskiptum mínum við Ægi þegar ég bjó sem barn í Garðabæ og kristallaðist í óljósri en um leið skýrri minningu um það þegar hann rændi mér.

Hin skelfilega ógn Ægir, sem aldrei mátti samt nefna á nafn og enginn hafði mátt til að bjarga okkur frá.

Mér var rænt úti á götu. Eftir að ég hafði fengið kjarkinn til að hlaupa fram hjá Ægi og öskra NEI af öllum sálarkröftum. Svo viss um að þar með væri ég loks sloppin. En það var ekki svo gott. Lengi vel mundi ég bara eftir fyrri hlutanum af ránsminningunni. Það gerði mig ákaflega óörugga og óvissa um mínar eigin minningar.  Myndin af því þegar Ægir hafði allt í einu stöðvað appelsínugula bílinn við fæturna á mér þar sem ég var að leika mér á Breiðásnum með hinum krökkunum. Hvernig ég missti máttinn og málið þegar ég sá hann, gegndi umsvifalaust þegar hann skipaði mér að setjast inn í bílinn og svo þegar hann kom ógnandi að mér þar sem ég stóð stjörf við skreiðartrönuna einhver staðar lengst úti í Krísuvíkurhrauni. Þessi mynd heimsótti mig mörg þúsund sinnum næstu áratugi. Ægir að æða í áttina að mér, stór og ógnandi og svo allt svart. Hélt kannski að hugurinn hefði slökkt á restinni af minningunni vegna þess að litla barnið hafi ekki getað varið sig gegn enn einni nauðguninni af hendi þessa vonda manns.  En hugurinn mundi að þetta var skelfilegur dagur og að þegar honum var lokið var Ægir aftur farinn að hrósa mér. Þegar aðrir heyrðu til. Talaði hástemmt um hvað ég væri frábær og flink. Alltaf glottandi.

Það er svo mikil ringulreið í mér, líka þyngsli og dofi í höfðinu mínu og hjartanu og fótunum, alls staðar í líkamanum. Síðan kærkomin gleymska á löngum köflum og efi um eigin minningarbrot þegar þau brjóta sér leið að minninu. Held að kannski sé hausinn á mér bara að búa til bull. Hef heyrt sagt að börn segi svona sögur af því að þau eru með svo mikið ímyndunarafl. Tek það til mín.

En svo bráðnaði ég til lífsins aftur löngu seinna og þá mundi líkaminn minn allt áður en hugurinn gat raðar minningum almennilega saman. Það var þá sem líkaminn fór í keng. Enn seinna var myndin orðin mjög skýr. Þá var ég steinhætt að undra mig á skelfingunni sem yfirtók mig þegar æskan mín byrjaði að lifna við.

Minningarnar vakna
Það var ekkert skrýtið að ég héldi að ég væri klikkuð og mikið ofboðslega sem ég hef verið sterk að verða það ekki eftir að hafa verið sett í þessar skelfilegu aðstæður.          

Ég var bara úti að leika mér með krökkunum. Æ ekki aftur  ... ææææ ég get ekki talað. Get ekki sagt krökkunum að ég má alls ekki fara inn í bílinn hans. Get ekki sagt neitt. Sest inn í bílinn og segi ekki neitt. Krakkarnir spyrja ekki neitt. Halda bara áfram að leika. Nema ég. Ég er lokuð inni í bílnum hjá Ægi. Hann keyrir og keyrir.  Ég er mjög hrædd innan í mér en ég vil ekki að Ægir fatti það. Þá stoppar hann kannski bílinn og leyfir mér  að fara. Til baka til krakkana í fallin spýta. Og ég skal gleyma öllu.

Mjög lengi komu minningarbrotin þannig til mín að ég hélt að fyrst hefðir þú rænt mér, til að fara með mig út í hraun að meiða mig. Það hafi verið það sem gerði mig svo hrædda að ég hefði fengið kjark til að öskra á þig og hlaupa í burtu næst þegar þú sast fyrir mér við dyrnar heima. En núna man ég vel hvernig þetta var. Það gerðist eftir að ég hljóp í burtu.

Manstu? Fyrst fékk ég kjarkinn til að öskra á þig og forða mér undan þér. Þannig að þú náðir mér ekki. Ég stóð við hornið á húsinu okkar og safnaði í mig kjarki. Hljóp svo eins og eldibrandur fram hjá dyrunum þínum þar sem þú beiðst berrassaður eftir því að geta gripið mig þegar ég var að reyna að komast inn til mín. Og ég öskraði á þig. Öskraði „NEI“ og slapp. Í fyrsta sinn náðir þú mér ekki.

Það var eftir þann atburð sem þú rændir Ingu litlu. Fórst með hana lengst út í buskann. Til að hóta henni og lemja hana. Kenna henni lexíu. Fyrst hún hafði óhlýðnast þér. Hélt ég þá. – Núna veit ég að þú vissir að þú varst að missa tökin á litla barninu. Vildir tryggja þér þögnina. Að Inga litla segði ekki frá. Hún mátti aldrei segja frá. Svo fólk kæmist ekki að því hver þú í rauninni ert.

Ég sit við hliðina á honum í bílnum og segi ekki orð. Fyrst segir hann heldur ekkert, ekki einu sinni ljótt. Keyrir bara og glottir mjög mikið. Ég veit ekki hvert hann er að fara, er hætt að sjá hús og aðra bíla, sé bara hraun allstaðar. Svo byrjar hann allt í einu að tala. Hann er svo reiður í röddinni og segir að ég geti ekkert ráðið yfir sér, ég ráði engu og kunni ekki neitt. Ég hefði aldrei getað skrifað þessar sögur mínar ef hann hefði ekki hjálpað mér. Ég kunni ekkert að skrifa.

Ég get ekki talað. Ég fer samt ekki að gráta. Ég er bara að reyna að láta fara lítið fyrir mér. Hann er að segja þetta við mig þegar við erum enn í bílnum.

Svo stoppar hann loks bílinn og öskrar á mig að fara út. Ég þori samt ekki að hlaupa í burtu og rata ekki neitt. Það eru svona spýtur þarna, enginn harðfiskur á þeim, bara fullt af spýtum. Hann skipar mér að standa hjá einni spýtunni og kemur æðandi í áttina að mér. Hann er svo reiður og ég held hann ætli að rífa mig úr fötunum, en hann gerir það ekki og hann er ekki berrassaður eins og vanalega þegar hann nær mér. Kemur bara æðandi að mér, bindur hendurnar á mér fastar við spýtuna og æðir svo fram og til baka rosalega reiður.

Ég er hrædd innan í mér og hugsa bara um mömmu, eins og hún geti komið og bjargað mér. En ég veit að hún getur það ekki neitt því hún veit ekkert hvar ég er og getur ekki fundið mig. Ég er svo langt í burtu, alveg föst. Ég hreyfi mig ekki og ég ætla ekki að gráta. Ég get haldið grátinum í mér.

Hann er að öskra á mig. Segir að ég sé fífl og að pabbi minn sé fífl sem eigi bara börn sem eru fífl. Hann segir að hann viti líka alveg að mig langi að segja mömmu allt en að ég muni ekki gera það. Ég megi ekki segja mömmu. Engum og hann ætlar alltaf að fylgjast með mér til að vita hvað ég er að gera og segja. Hann segir að ég sé svo ógeðsleg og að allt sem hefur gerst sé mér að kenna, segir líka að það sé ekki gott að mamma viti hvernig ég er. Hann verður reiðari og reiðari og núna segist hann ætla að drepa mig ef ég kjafta frá. Hann ætlar að drepa mig. Það sé alveg sama hvert ég fer, hann geti alltaf náð mér. Hann ætlar að stinga mig og kyrkja mig og sparka í mig. Núna lemur hann mig í framan. „Svona högg er bara lítið“ segir hann, „svona er bara lítið. Það verður mikið meira“. Hann lemur mig í framan og svo lemur hann mig með hnefanum í framan líka. Svo hættir hann að lemja og öskra á mig og þá fer hann að hlæja að mér, tröllahlátrinum sínum.  Það er rosalega vont í augunum á honum.

Nei Ægir, minningin stoppar ekki lengur þar sem þú labbar að mér glottandi og ógnandi, svo risa stór í samanburði við barnið. Ég er svo sannarlega þarna á staðnum. En ekki í litla líkamanum hennar Ingu sem stendur fastur upp við skreiðarhjallinn. Heldur fyrir ofan hjallinn. Horfi á þig, fullorðinn manninn, lemja barnið. Lemja fast. Ég lifi þetta af með því að yfirgefa sjálfa mig. Litli líkaminn er tómur.

Ég fer ekki að gráta. Bíð bara og veit ekkert hvað hann ætlar að gera við mig næst. Það skiptir líka engu máli. Ég finn ekkert til. Hann lemur mig í framan og í magann og ég finn það ekki. Ekki heldur þegar hann segist ætla að skilja mig eftir.

Finn ekki neitt, bundin við skreiðarhjall í stuttermabol um haust lengst úti í hrauni og veit ekki hvaða átt er heim. Ég tek heldur ekki eftir því að ég er búin að pissa niður í bláu uppahalds flauels buxurnar mínar sem mamma er búin að setja svo fínan borða neðan á svo ég geti notað þær lengur. Ég er 11 ára, bráðum að verða tólf.  

Svo skipar hann mér að fara inn í bílinn. En ég er bundin með hendurnar við spýtuna og get ekkert farið. Get ekkert losað mig sjálf. Hann skipar mér samt að koma „sestu inn í bílinn druslan þín“ öskrar hann og fer aftur að æða að mér og frá mér. Ég bíð,  get ekkert gert, reyni ekkert að losa mig. Ég verð bara að bíða. Svo fer hann aftur að hlæja að mér, fer í bílinn og keyrir í burtu. Hann var líka búinn að segja að hann ætlaði að skilja mig eftir. Ég bíð grafkyrr og veit ekkert hvað mun gerast næst.

En þú stendur ekki við hótunina um að skilja mig eftir bundna við skreiðarhjallinn. Ef þú hefðir gert það og ég dáið ein í auðninni þá hefðir þú kannski komist upp með skrautlega lygasögu. Þú hefur komist upp með margar svoleiðis Ægir. Litli kall sem ræðst á börn.

Svo snýr hann við. Keyrir fyrst út í buskann en snýr svo við. Ég sé ekki hnífinn þegar hann sker bandið og veit ekki hvort hann ætlar að meiða mig með honum. Passa að vera alveg kyrr og hann sker mig ekki, bara bandið og skipar mér að setjast í bílinn. Ég finn ekki neitt. Gegni bara og gegni og segi ekki orð alla leiðina til baka. Hann talar ekkert við mig í bílnum og skipar mér ekki neitt. Þegir bara og keyrir. Ég líka, sit fram í og þegi. Bráðum losna ég.

Hann fer ekki með mig alla leið heim, heldur skilur mig eftir hjá skátaheimilinu og segir mér að druslast til að labba heim „og mundu það sem ég hef sagt“ hvæsir hann á mig þegar ég fer út úr bílnum. Ég man það.

Ég bíð eftir að hann keyri í burtu. Það er myrkur og ég kemst heim án þess að sjást. Sé bílinn hans Ægis fyrir utan húsið þegar ég er komin alla leið. Veit að hann er núna uppi á lofti heima hjá sér, hjá fjölskyldunni sinni. Ég stend um stund við horn hússins, veit að mamma er inni i eldhúsi á neðri hæðinni, þar sem ég á heima. Ég er búin að kíkja á gluggann í mínu herbergi og veit að það er enginn þar inni. Það er gott því þá þarf ég bara að plata mömmu. Læðist inn og fer fyrst inn á klósettið á ganginum. Heyri í mömmu í eldhúsinu en engum öðrum. Krakkarnir eru örugglega allir búnir að borða og farnir út aftur. Er fegin.   

Sé rauðu kinnina í klósettspeglinum og er búin að fatta að buxurnar mínar eru blautar í klofinu og alveg niður. Ég er líka líka rauð á höndunum eftir bandið sem ég var bundin með við spýtuna. Finn núna sviðann í kinninni og maganum mínum. Sest á gólfið og tár byrja að renna niður kinnarnar. En bara smá, ég verð að vera róleg og harka af mér. Verð að komast inn i herbergið mitt til að fara úr blautu buxunum og komast með þær í óhreina tauið til að grafa þær í hrúguna. Þá fattar mamma kannski ekki að ég er búin að pissa í þær. Ef hún fattar það samt þá segi ég að það hafi gerst óvart þegar ég var úti að leika og ég veit að hún skammar mig ekki mikið.

En mamma fattar ekkert, það eru svo mörg föt í hrúgunni sem hún þarf að þvo og svo mikið að gera hjá henni í eldhúsinu. Hún sér ekki heldur að ég er rauð á kinninni og höndunum. Mér tekst að hlaupa strax aftur inn í herbergi þegar ég er búin að fara með buxurnar og nærbuxurnar í óhreina tauið og fela í fatahrúgunni. En mamma kallar á mig og segir mér að koma að borða, ég kalla á móti að ég sé búin að borða heima hjá Láru og hún skammar mig smá innan úr eldhúsi „þú átt að borða heima hjá þér Ingibjörg“.

Mér finnst vont að ljúga að mömmu minni og mig langar svo mikið til að hlaupa til hennar. En það er ekki hægt. Hún má ekki fatta hvað hefur gerst, ekki sjá rauðu kinnina mína og hendurnar. Og hún fattar ekkert. Ég borða engan kvöldmat, er heldur ekki svöng og man ekki hvað ég geri næst. En ég man að ég er ennþá rauð næsta dag þegar ég fer í skólann en get líka passað þá að enginn fatti af hverju og er með ermaranar á peysunni minni langt niður á hendurnar.               

Ég slapp lifandi heim eftir þessa vondu lífsreynslu en mér var samt ekki óhætt, dæmd til að passa upp á að glæpurinn á mér sjálfri kæmist ekki upp. Enginn til að verða reiður fyrir mína hönd. Ekkert fang til að skríða upp í, enginn hlýr faðmur til að hugga mig litla barnið og segja að allt verði í lagi. Enginn til að taka í burtu pissublautu buxurnar og segja að það sé ekkert skrýtið að ég skuli hafa pissað á mig undir þessari ógn. Eða til að strjúka varlega yfir þar sem ég var aum og rauð, segja mér hvað ég var búin að vera dugleg og hvað ég var óheppin að verða fyrir þessu skrímsli.

Það var samt engin leið til að lifa þetta af nema að fá einhverja hlýju og litli sakbitni stelpulíkaminn náði sér í nokkur faðmlög og huggun í fanginu á bæði mömmu sinni og pabba. Tíndist nokkrum sinnum fram á nætur og fannst á endanum við mikla gleði heimilisfólksins. Svo gott að komast í mömmufang.   

En enginn komst að ljóta leyndarmálinu. Engin orð úr barnsmunninum og engin tár á hvarminum sem hægt var að tengja við ljóta skrímslið. Sloppin frá því ellefu ára. Alveg ein. 

Svo er tekin mynd af mér og mömmu saman úti i garði. Svolítið seinna. Þá er ég dáin innan í mér einhvern veginn. Ég er ekki í sjálfri mér og sé bara tóman stelpulíkama á mynd með mömmu sinni.  

Ég finn ekki fyrir óttanum og veit að þú munt ekki sitja fyrir mér oftar. Laus við að þurfa að vera ein með þér. Það er best. Samt taugaveikluð og sérstaklega á nálum ef þú ert einhver staðar í kring. Svo glöð þegar við flytjum loks í burtu. Líka þótt að þá sé ég búin að eignast alvöru og uppáhalds kennara eftir öll þessi ár og hlakki til að mæta í skólann. Við förum samt ekki í burtu fyrr en ég er 15 ára. Stroka Garðabæ út úr lífi mínu. Þar til Inga litla kemst til sjálfrar sín aftur og ég stíg hugrökk út úr vefnum þínum Ægir.

Tilfinningarnar vakna
Ég fór smám saman að finna fyrir öllu aftur. Tilfinningum barnsins sem frusu þegar mér var rænt úti á götu seinnipart venjulegs dags. Skelfilega óttann yfir því að vera ekki laus við skrímslið þótt ég hafi loks þorað að öskra á það og hlaupa í burtu. Ekkert öskur í mér eða kraftur í fótunum til að hlaupa þegar Ægir birtist allt í einu innan um okkur krakkana. Frosin máttlaus lítil stelpa.Yfirgaf líkama minn og var orðin fullorðin kona þegar ég gat farið í hann aftur, þorði að vera ég aftur. Komin inn á geðdeild þar sem Rúdólf sagði að hann sæi á mér að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir mig. Rúdólf sem ég var svo hrædd við í byrjun af því að hann var svo frekur við mig þótt hann væri líka góður. Sá í gegnum mig og gat leikið á mig.

En Rúdolf var ekki að leika sér að mér. Hann sýndi mér ekki hlýju og gekk ekki hart að mér til þess að nota sér mig og brjóta mig niður, heldur til að hjálpa mér að ná sambandi við sjálfa mig. Það var bara svo skelfilega erfitt að að treysta aftur. Hvernig í ósköpunum gat ég líka vitað að þessi maður meinti orðin sem hann sagði við mig? Og hvar átti ég að finna trúna á mig sjálfa aftur, á mannkynið? Ég verð Rúdolfi eilíflega þakklát fyrir að gefast ekki upp á mér. Hann náði til mín þótt ég skyldi ekki að hann vildi alls ekki hlusta á mig segja sögur um villingana í hverfinu mínu þegar ég var barn og hvernig pabbi minn lék á þá. Eða á sögurnar af Ingu litlu sem ætlaði að ferðast til Stóra Bretlands þegar hún yrði stór. Vildi ekki heyra mig segja sögur af öðrum eða af sjálfri mér eins og ég væri einhver allt önnur stelpa. Rúdolf sagði að ég talaði þannig um Ingu litlu. Eins og hún væri ekki ég. Ég skyldi ekki hvað hann meinti fyrr en ég var komin alveg í keng og allar heimsins tilfinningar helltust loksins yfir mig. Allar tilfinningarnar hennar Ingu litlu........ Þá var engin sögubók til lengur. Bara litla skelfingu losna Inga sem gat ekki talað fyrir ekkasogum. Inga sem var komin aftur í líkamann sinn.

Æææ mér er svo illt í kinninni minni, það svíður svo mikið og það er svo sárt í maganum mínum og í hjartanu, það er fastur stingur í hjartanu mínu. Mér er illt og ég skelf svo mikið í fótunum. Ég get ekki látið það stoppa, skelf bara og skelf. 

Það er líka risastórt öskur innan í mér ..... en það bara kemur ekki. Öskrið þarf að komast út. Það er svart og er fast í maganum á mér. Ég hélt að ég væri laus við hann, fengi loksins frið. Hann er að lemja mig og mér er svo illt. Lítil börn eiga ekki að deyja, ég vil ekki deyja!

Ég verð að losna en hendurnar mínar eru alveg fastar. Þá kemur stingurinn í hjartað mitt, kemur svona snöggt þegar hann keyrir í burtu og skilur mig eftir fasta við spýtuna. Hvernig á mamma að finna mig svona langt í burtu í myrkrinu? Stingurinn verður að fara úr mér. Það verður einhver að hjálpa mér að taka þennan sting! Mamma mín, ég vil fá mömmu mína!

Fyrst var ekki gott að vera komin aftur í minn eigin líkama og tárin runnu í stríðum straumum nær samfellt í tvö ár. Svo fór að birta. Það fór svo mikið vont með tárunum. Samt svaf ég með hníf undir koddanum í mörg ár.  Svo skelfilega lífsseig þessi tilfinning um hættuna sem gæti smeykt sér í gegnum gluggana og veggina. Til að ganga frá mér og litlu saklausu stelpunni minni. Samt vissi Ægir ekki á þessum tíma að ég var byrjuð að kjafta svona mikið frá. Fyrstu árin eftir að Inga litla þorði að tala um Garðabæjarárin gat hún nefnilega bara gert það í vernduðu umhverfi.  Alltaf samt á nálum og hnífurinn stutt undan.

Ég skyldi ekki hegðun mína sem fullorðin manneskja. Af hverju óttinn fór svona með mig, fannst óöryggið mitt asnalegt, óþolandi. Gerði mér svo vel grein fyrir að allur þessi ótti var ekki í samræmi við raunveruleikann sem ég bjó við sem fullorðin kona. Búin að fá það staðfest að ég var ekki geðveik, dansaði á línunni en gat enn valið. Nema þetta með gluggana og veggina. Ég tók niður gardínur af hluta af íbúðinni til að hafa yfirsýn á alla hreyfingu fyrir utan gluggana í myrkrinu og þegar ég gekk úti á daginn fannst mér það óbærileg tilfinning að vita af einhverjum fyrir aftan mig. Samt sat ég á mér að líta stöðugt um öxl til að kanna hættuna. Vissi vel að hún var innan í mér en ekki fyrir aftan mig. Gat samt ekki hætt að vera hrædd. Um mig og litlu stelpuna mína.

Þessi lamandi ótti minnkaði eftir því sem ég vandist að tala um söguna mína. Það tók mig samt þrjú ár að byggja upp kjark til að fara með Garðabæjarmálið þangað sem það átti heima og ég þurfti svo sannarlega á þeim kjarki að halda þegar ég steig það skref.

Það er gríðarlegt samhengi í lífi mínu og ég skil upp á hár hvernig komið var fyrir mér. Líka hversu mikilvægt það var að Inga litla öðlaðist kjark til að fara aftur í líkamann sinn og að hún treysti heiminum fyrir Garðabæjarárunum. Leyfði minningunum að koma og segði frá öllu, líka ránsferðinni þar sem þú lamdir mig Ægir og hótaðir að ef ég vogaði mér einhvern tímann að kjafta frá myndir þú hundelta mig til að berja úr mér líftóruna. Drepa mig og fjölskylduna mína. Litlu stelpuna mína.

Það er rosalegt hvernig undirvitundin upplifði óttann og magnaði hann upp eftir að ég var orðin móðir en hugurinn kom ekki skýrt fram með myndina af þessari skelfilegu hótun fyrr en stelpan mín var orðin stór og sterk.  

Loksins frjáls
Nú er vonda loforðið um þögnina loks orðið ógilt og líkaminn minn getur hætt að þjást. Skelfingin og sársaukinn, sem svikin þín og yfirgangurinn skildu eftir í mér Ægir, lama mig ekki lengur. Ekki heldur ljótu orðin þín, hótanirnar og höggin. Óttinn hefur verið fjarlægður, eyddur. Líka ljóti tröllahláturinn þinn. Þetta er svo gott svona, með hjartað mitt hreint. Til að ég geti lifað heil, til að afkomendur mínir læsist ekki inni í ljóta leyndarmálinu og þurfi líka að þjást af þínum völdum. Við erum frjáls.   

Mikið er gott að geta sofið vært á nóttunni. Gamla martröðin orðin vindlaus minning sem getur ekki lengur troðið sér inn í draumaheiminn minn. Steinhætt að vakna upp með andfælum til að komast út úr lömuninni þegar einhver læðist að mér í rúminu eða af því að ég get ekki hlaupið nógu hratt undan hættunni endalausu, stöðugt umsetin og hvergi óhult. Yndisleg minningin um það þegar vondi draumurinn kom  í síðasta sinn og var gerður að engu af mínum eigin styrk.

Í það skiptið er einhver undir rúminu mínu, hendi sem kemur fálmaði eftir mér lamaðri undir sænginni minni. Fyrst er allt eins og áður, ég stjörf af hræðslu, samt að reyna af öllum mætti að öskra á hjálp. En það koma engin hljóð, finn fyrir þeim þarna niðri en þau sitja öll föst í hálsinum á mér, undir svarta steinklumpinum sem kæfir allt. Engin orð, ekkert hljóð. En þessa nótt losnar ljóti steinninn loksins. Öskrið kemur! Það kemur svo gríðarlega hátt öskur NEI!

Klumpurinn farinn og hljóðið kemur upp úr mínum eigin líkama, út úr mínum eigin munni, ekki bara einu sinni langt neeeeeiiiiiii, heldur oft og mörgum sinnum Nei! Nei! Nei! NEI! Af svo miklum krafti að ég vakna við það, vakna við að ég öskra Nei!!!!!!!!!!!  Svo hátt  að ég er viss um að ég hafi vakið allt hverfið mitt þessa nótt. Og ég skammast mín ekki neitt fyrir það, heldur skelli hlæ. Búin að upplifa besta endir á draumi sem ég hef átt síðan ég var lítil stelpa i Garðabæ. Svo gott að sofna aftur með neiið á vörunum og allan þennan styrk í líkamanum.  

Ég verð aldrei aftur hrædd við þig vondi maður. Hvorki Inga stóra né Inga litla sem var of lítil til að sjá í gegnum þig. Nú hefur henni  verið bjargað, við tvær erum eitt. Öruggar, rólegar og sterkar. Þegar mér tókst að hreinsa svörtu slikjuna burt úr lífi mínu fylltist hjarta mitt af djúp bláu fallegu og glöðu ljósi. Fallegum indíána bláum lit. Þetta fallega bláa ljós fyllti ekki einungis minn líkama heldur breiddist yfir allan heiminn. Til að allir sem þú kemur nálægt megi varast þig og fái kjark til að segja nei við þig, eins og ég gerði loksins. Og segja frá. Börnin sem ég veit þú meiddir og líka hin sem ég vissi ekki af. Kjarkurinn  til að stoppa þig af er kominn til að vera. Enginn á að þurfa að vera í hættu í kringum þig lengur.

Góð manneskja sem ég þekki sagði mér að fyrst ég notaði litina svona fallega væri nú gott ef ég gæti sent þér lit Ægir. Þrátt fyrir allt myndi það gera gott. Ég efaðist mjög en gerði það samt. Sendi góðan hvítan lit. Gerði tilraun til að trúa því að þú vildir sjálfur stöðva vonskuna í þér. Vildir biðja guð um að stoppa þig svo þú hættir að gera öðrum mein. En ég trúði ekki í einlægni að til væri lækning fyrir þig. Lækning er fyrir veikt fólk. Ég trúi ekki að það sé til nein veiki sem hefur þau sjúkdómseinkenni að meiða börn. Úthugsað í leyni. Ég sé heldur ekki að þú viljir hætta að vera eins og þú ert. Viljir bara vera góð manneskja þegar þú þarft á því að halda, til að geta verið vondur í friði. Alltaf að plotta með lífið sem þér var gefið, í leikjum sem ganga út á að drottna, blekkja og meiða. Þess vegna þýðir ekkert að fara í leiki við þig heldur þarf að tala við þig eins og þú raunverulega ert.

Á meðan fullorðna fólkið er að ná því bið ég góðan guð að senda mikið af fallega bláa litnum til allra barna. Ekkert okkar á að eiga sögu eins og mína.

Af ást og umhyggju fyrir Ingu litlu og öllum þeim börnum og unglingum sem hafa mætt skrímslum og þurft að sjá við þeim, alveg ein.

Ingibjörg Þ Ólafsdóttir

Thursday, October 25, 2012

Ægir Geirdal hefur ekki lengur ofurstjórn á ofbeldisslóð sinni

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S201200519&Domur=3&type=1&Serial=1&Words

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E201102596&Domur=2&type=1&Serial=1

Í september síðastliðnum hlaut Ægir Geirdal dóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að særa blygðunarkennd nágranna sinna:

Þykir nægilega sannað með framburði vitna svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi viðhaft það atferli sem lýst er, þ.e. komið út úr húsi sínu nakinn á neðanverðum líkamanum, handleikið kynfæri sín og viðhaft samfarahreyfingar í nokkra stund. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefið að sök í ákæruskjali ríkissaksóknara og telst háttsemi ákærða varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“.

Svo segir í niðurlagi dómsins sem sjá má í heild sinni á linkinum hér fyrir ofan.

Til hamingju með þessa niðurstöðu fyrir dómstólum Kristín Erla, Davíð og Jóhannes og takk kærlega fyrir að gefast ekki upp fyrir klækjum Ægis. Það er ekkert grín að lenda í þessum manni í ham og með ólíkindum hvað hann leggur á sig til að búa til þá blekkingu að hann sé þolandi ofbeldisverka, en ekki gerandi þeirra. Þá hegðun þarf að skoða í samhengi við hina slæmu samvisku sem Ægir hefur og vill halda leyndri. Þessi dómur er mikill áfangasigur í langri baráttu gegn þöggun á ofbeldisslóð Ægis Geirdal. Mikið svakalega er samt vont að fá þau skilaboð að Ægir fái skilorðsbundinn dóm á þeim forsendum að hann geti lagt fram hreint sakavottorð. Það er sárt að upplifa að réttarkerfið skuli ekki ná utan um löngu og ljótu brotaslóðina sem manninum fylgir. Það er líka vont að sjá leyndina sem hefur þótt hæfa í kringum þetta mál. Lokað dómshald og allir nafnlausir. Það þykir þá ekki við hæfi að almenningur fái vitneskju um hvernig Ægir brýtur á samferðamönnum sínum, þegar hann þó hlýtur dóm fyrir brot sín. Hvaða skilaboð er svo verið að senda út í samfélagið?

Í febrúar síðastliðnum var ritstjóri Pressunnar sýknaður í dómsmáli sem Ægir Geirdal höfðaði gegn honum. Héraðsdómur Reykjavíkur hreinsaði ritstjórann af öllum ásökunum Ægis um ærumeiðingar og því að miðilinn hafi tekið upp á því að vilja skemma fyrir honum framboð hans til Stjórnlagaþings. Sá dómur er líka mikill áfangasigur gegn þöggunar- og blekkingatilraunum Ægis. Sigur gegn tilraunum hans til að afvegaleiða umræðuna svo almenningur upplifi hann sem þolanda en ekki þann geranda sem hann er.

Á seinni linkinum hér fyrir ofan má lesa Pressudóminn í heild sinn.

Á þessu ári hafa því fallið tveir opinberir dómar sem sýna hvernig dregið hefur úr valdi Ægis til að viðhalda þögguninni í kringum ofbeldisslóð sína. Fyrir þá sem trúa því að það ætti að stoppa manninn af er rétt að upplýsa að við höfum t.d. frétt af Ægi halda áfram að djöflast í nágrönnum sínum sem honum er mikið í mun að beina athyglinni að sem óvinum sínum.  Hann sniglast fyrir utan hjá þeim á nóttunni til að stinga göt á hjólbarða og ögrar þeim gegn sér á ýmsan hátt. Honum tókst t.a.m. að koma einum þeirra út í eltingaleik við sig eina nóttina og viti menn ... lögreglan var mætt til nágrannans stuttu seinna í miklum rannsóknarham og hann þurfti að sæta margra klukkutíma yfirheyrslum vegna ákæru Ægis um meiriháttar líkamsárás og morðtilraun af hendi þessa nágranna síns. Kunnuglegt munstur hjá Ægi, ekki síst í ljósi þess að hann er á leið með Pressumálið fyrir Hæstarétt, málið sem hann tapaði algerlega í öllum liðum fyrir Héraðsdómi. Við eigum von á að heyra málflutning í Hæstarétti sem byggir á því að miðillinn sé „víst“ búinn að leggja mannorð hans í rúst, sem sjáist m.a. á því hvernig hann þurfi að sitja undir linnulausum árásum fólks ... fórnarlambið Ægir.

Það vorum við systur sem opnuðum á opinbera umræðu um ofbeldisslóð Ægis. Við tökum kærum fagnandi frá þessum kæruglaða manni, svo loks opnist möguleiki á að fara í saumana á þeim ásökunum sem við höfum haft uppi um hann áratugum saman. En okkur hafa ekki borist neinar kærur, hvorki vegna ærumeiðinga né fjarkúgunarinnar sem við eigum líka að vera sekar um. Það hvað kærurnar eru lengi a leiðinni er skiljanlegt í ljósi þess, enn og aftur, hvernig Ægir vill ekki beina kastljósinu á þá staðreynd að hann er ekki þolandi ofbeldis heldur gerandi þess.

Það er heldur ekkert nýtt við hegðunarmunstrið sem Ægir sýnir þessa dagana og fyrir okkur, sem höfum orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu, er þetta munstur mjög kunnuglegt. Það er líka mjög auðvelt að sjá og rekja þetta munstur, ef menn hafa viljann til þess og það er með ólíkindum hvað maðurinn gengur langt ef honum finnst yfirráðum sínum ógnað. Pabbi okkar hafði t.d. illar bifur á Ægi þegar við bjuggum í nágrenni við hann og sá að hluta til í gegnum hann, þótt hann hefði ekki hugmynd um hversu langt Ægir gekk í viðbjóðnum. Faðir okkar sýndi álit sitt á þessum manni með því að halda öllum samskiptum við hann í algjöru lágmarki. Ægir lét ekki í ljós við pabba okkar að honum mislíkaði þessi framkoma hans. Nei, hann hefndi sín á börnunum hans, okkur krílunum. Grimmilega og miskunnarlaust. Eins og hann gerði reyndar við fleiri börn í hverfinu, hvort sem það var af hefnd við foreldra þeirra eða bara vegna þess að hann langaði til þess. Eins var það lengi þannig að í hvert sinn sem Ingibjörg gerði eitthvað til að vekja athygli á slóð Ægis þá mátti Þórey, sem líka lenti illa í honum sem barn í Garðabæ, eiga von á upphringingum frá ofbeldismanninum. Hún var illa farin eftir þennan mann og óttaðist hann lengi. Hann nýtti sér valdið sem það gaf honum til að hóta henni öllu illu ef hún vogaði sér að fylgja Ingibjörgu eftir og segja frá samskiptum sínum við hann. Þetta er stíllinn hans Ægis.  

Það er mikill léttir að sjá að valdið til að hafa ofurstjórn á ofbeldisslóð sinni er að molna í höndunum á Ægi. En ef fólk trúir því að það verði til þess að hann gangist við sjálfum sér og brotum sínum þá er það dýrkeypt trú. Ægir hættir ekki, hann þarf að stöðva.       

Hér á þessari síðu ætlum við að birta frásögn Ingibjargar af því þegar hún reyndi, sem barn, að gera uppreisn gegn Ægi og fékk skelfilega útreið fyrir. Það er kominn tími á að barnið fái að segja sögu sína, Það er líka rétt að vara við því að lesningin tekur á.

Þá viljum við systur eindregið benda á Drekaslóð, fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur hvers kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er fyrir bæði konur og karla og þar eru unnin stórkostleg kraftaverk alla daga.  

  Ingibjörg og Sigurlina