Tuesday, October 25, 2011

Almenn skynsemi segir að það ætti að vera auðvelt að takast á við kynferðislegt ofbeldi á börnum – En í raunveruleikanum þarf til þess mikinn kjark

Hver fann upp á fyrningarfrestinum?

Mikið ofboðslega hafa það verið sterk öfl sem komu þeirri hugsun inn í réttarkerfið á sínum tíma að fyrning ætti við þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi og öðru því ofbeldi sem viðgengst gegn börnum. Svo sterk að þrátt fyrir að fólk viti nú almennt mikið betur um hvernig gerendur tryggja sér þögnina er enn ekki búið að afmá þetta orð út úr kerfinu þegar kemur að þessum brotaflokkum. Það má líka enn heyra leifar af gamalli hugsun sem birtist í fullyrðingum eins og þeim að ekki sé mark takandi á börnum sem upplýsi um svona glæpi gegn sér þar sem þannig sögur séu oftast sprottnar úr sterku ímyndunarafli barna. Eða að meðferðaraðilar stundi þá iðju að planta inn fölskum minningum um kynferðislegt ofbeldi í æsku hjá fullorðnum skjólstæðingum sínum. Segir hver fyrir hönd hvers?

Þöggunarviðhorfið er til allrar hamingju á undanhaldi

Við getum ekki svarað því hvað Freud var eiginlega að pæla þegar hann tók þátt í að koma þessu þöggunarviðhorfi inn í vestræna sálfræði? Klárlega var það ekki hagur okkar sem höfum ekki einungis þurft að leggja mikið á okkur til að sækja okkur leyfi til að ganga upprétt eftir að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi, heldur hafa mörg okkar þurft að heyja mikla og óréttláta baráttu til að fá að tala rétt um fortíð okkar og líf. Þau rök að við getum ekki munað rétt svona löngu seinna standast ekki raunveruleikann. Mörg okkar muna einmitt ekki fyrr en löngu seinna og þá jafnvel í miklum smáatriðum. Það er algengt að þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku fái ekki æskuminningar í heild og samhengið i eigið líf fyrr en komið er langt inn í fullorðinsárin. Fyrndar minningar? Nei, svo vondar minningar í óréttlátu samfélagsviðhorfi að líkami og sál beitir gríðarlegu afli við að bæla þær niður. Við vitum um svo sorglega mörg dæmi þess að jafnvel margfullorðið fólk gerir allt til að finna sér leiðir til að svæfa sársaukann, sektarkenndina og skömmina sem hefur verið plantað í það vegna þess sem aðrir hafa leyft sér að gera þeim. Til að lifa lífið af.

Hvert er hið raunverulega taboo þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi?

Við þekkjum engan sem fyllist ekki ótta þegar hann stendur frammi fyrir því að þurfa að taka á kynferðislegu ofbeldi eða grun um það í sínu nánasta umhverfi. Eða við tilhugsunina eina saman. Því er oft haldið á lofti að kynferðislegt ofbeldi sé svo skelfilegt, sérstaklega þegar það beinist gegn börnum, að það sé taboo í samfélaginu. Eitthvað sem samfélagið leyfi ekki að viðgangist. Sá partur sem snýr að því hversu skelfilegt þetta ofbeldi er á við öll rök að styðjast en þegar horft er á að á.a.g. fimmta hvert barn lendir í kynferðislegu ofbeldi og meira en helmingur þeirra á grófan hátt þá stenst sú fullyrðing ekki að samfélagið líti á þessi brot sem alvarlegan glæp. Réttara væri að tala um að í samfélaginu grasseri faraldur kynferðislegs ofbeldis gegn börnum. Ofbeldi sem því miður þrífst með leyfi samfélagsins því tabooið er svo sannarlega til staðar en það á bara ekki við brotin sjálf. Tabooið á við hvernig ekki hefur verið leyfilegt að tala um kynferðislegt ofbeldi eða spyrja spurninga sem geta beint athyglinni að gerendum þess og þöggunarmunstrinu í kringum þá. Getið þið séð fyrir ykkur sama samfélagsdoðann ef rannsóknir sýndu fram á að fimmta hvert barn verði fyrir bíl? Tæplega. Þegar kemur að óttanum sem fólk fyllist þegar það þarf að takast á við kynferðislegt ofbeldi í sínu nánasta umhverfi þá er það einfaldlega þannig að flestir eru mjög þjálfaðir í að líta undan í þeim ótta, afneitun og skömm. Við verðum því að horfast í augu við það að við þurfum ekki einungis að takast á við úthugsuð brot gerenda kynferðisbrota heldur samfélag sem hefur leyft brotum þeirra að viðgangast með því að líta undan.

Æ fleiri kjósa að hafast að þrátt fyrir óttann

En nú eru nýir tímar þar sem sífellt fleiri sækja sér styrk og fræðslu til að horfast í augu við og takast á við þessa vá samfélagsins, ekki síst í gegnum réttlætisbaráttu einstaklinga og samtaka sem láta sig málið varða. Það er því sístækkandi hópur sem sækir sér persónulegt vald og styrk til að takast á við tabooið í kringum kynferðislegt ofbeldi þrátt fyrir eigin ótta við þessar aðstæður.

Að styðja fólk við að taka ábyrgð á eigin lífi

Það eru líka komnir þeir tímar að fólk getur ekki lengur treyst á þöggunina þegar það velur að brjóta á börnum. Margir þolendur ofbeldis neita einfaldlega að búa lengur við það viðhorf að þeim beri að axla ábyrgð á lífi annarra. Við tökum ábyrgð á eigin lífi, hversu sársaukafullt sem það hefur verið. Í því felst að vinna úr kynferðislegu ofbeldi sem við höfum ekki valið að verða fyrir og þess vegna skilum við ábyrgðinni til síns heima. En við lifum í samfélagi manna og þurfum að upplifa þaðan stuðning við að koma þessari ábyrgð á réttan stað, sjá að því sé fylgt eftir að gerendur axli sína ábyrgð og við þurfum að hafa samfélagslegt leyfi til að tala upphátt um líf okkar eins og það raunverulega var og er. Líka þegar það eru þeir nánustu sem brjóta af sér og fjölskyldan freistast til að líta undan. Sannleikurinn getur svo sannarlega verið skelfilegur en hann verður hvorki afmáður né leystur með fyrningarlögum, vondum sálfræðikenningum eða þögn.

Beinum athyglinni að gerendum

Það er skiljanlegt út frá hinu raunverulega tabooi þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum að samfélagið hafi ekki heldur þróað með sér markvissar leiðir til að láta gerendur þess axla ábyrgð á gjörðum sínum. Við þurfum því ekki einungis að sækja okkur fræðslu, styrk og verkfæri til að að horfast í augu við raunveruleikann þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Við þurfum líka að sækja okkur þekkingu, verkfæri og ekki síst kjark til að beina athyglinni að gerendum. Láta þá og leyfa þeim að axla ábyrgð á eigin gjörðum og hugsunum. Þessir gerendur geta verið allt frá barnsaldri upp í mjög fullorðnar manneskjur, hver með sínar ástæður og sögur eða hvernig skynsamlegt getur talist að nálgast framin brot og hegðun sem fólk hefur tamið sér. Þar til samfélagið sækir sér styrk til að takast á við þetta verkefni verða gerendur ýmist upphafðir í afneitun eða afgreiddir sem úrkast samfélagsins. Allt eftir því hvort það kemst á endanum upp um þá. Hvorugt gerir raunverulegt gagn.

Fyrning á einfaldlega ekki við þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi

Þeir sem geta sett sig í spor okkar sem höfum lifað við og lifað af kynferðislegt ofbeldi skilja mikilvægi þess að við látum ekki þagga niður í okkur með þeirri kröfu að við þurfum að sætta okkur við að málin okkar séu of gömul fyrir dómstóla þegar þau eru þess eðlis að þau eiga hvergi annarstaðar heima. Óréttlát lög gera ekkert annað en að viðhalda því ofbeldi sem við höfum sætt og ræna gerendur þess tækifærinu á að axla ábyrgð á eigin lífi. Því ofbeldi þarf að linna svo hægt sé að byggja upp alvöru virðingu fyrir börnum, okkar lífi, þeim sem fremja ofbeldisbrot gegn börnum, framtíðinni og bara lífinu almennt.

Ingibjörg og Sigurlína

Monday, October 24, 2011

Ægir Geirdal stefnir ritstjóra Pressunnar fyrir það sem við systur höfum um hann að segja

Ægir er yfir höfuð mjög stefnuglaður maður og ekki langt síðan haft var eftir honum á netmiðli að kæruleiðin sé hin rétta leið þegar borgararnir telja sig varnarlausa. Skrítið að heyra þetta haft eftir manni sem lætur samfélagsreglurnar yfir höfuð ekki skipta sig neinu máli. Við systur veljum að kalla Ægi Geirdal siðlausan mann og höfum séð hann komast langt á þannig hegðun svo allt of lengi. Í nýlegum Vogadómi er t.d að finna dæmi um hvernig honum tókst að fá dómstóla í lið með sér við að hafa nærri 400 þúsund krónur af manni eftir miklar sviðsetningar og þrátt fyrir að hinir sömu dómstólar hafi talið Ægi afar ótrúverðugan (sjá slóðir aftast í skjalinu).

Það sem stingur samt mest í hjartað við lestur Vogadómsins, fyrir okkur sem höfum lent í Ægi, er að lesa lýsingar hans á því að hann hafi orðið svo skelfing hræddur þegar annar maður hélt honum niðri að tíminn hafi verið honum sem eilífð. Ef Ægir Geirdal er farinn að taka upp á því að mæta lífinu af tilfinningasemi er klárlega kominn tími á að hann setji sig inn í tilfinningaheim barnanna sem hann hefur tælt, ógnað og brotið niður, haldið nauðugum, lamið, nauðgað og svívirt á annan hátt. Við fullyrðum að ekkert okkar á minningar um að Ægi sé umhugað um hvernig öðrum líði. Þvert á móti þá gerir hann nákvæmlega það sem honum sýnist og hikar ekki við að búa til hin ótrúlegustu sjónarspil til að komast upp með það. Það fer um okkur ískaldur minningahrollur og er sko langt í frá út af smámunum sem við höfum fylgt okkar máli varðandi Ægi svona staðfastlega eftir.

Talandi um sjónarspil og ótrúverðugleika í tengslum við Ægir Geirdal er Búnaðarbankadómurinn góður lestur og skýrt dæmi um hversu langt hann gengur í að semja sínar eigin samfélagsreglur. Þar tókst Ægi nú samt ekki að græða peninga á eigin brotum og sviðsetningum þrátt fyrir einbeittan vilja og fyrirhöfn (sjá slóð á neðst í skjalinu).

En nú er það sum sé netmiðillinn Pressan sem Ægir telur sig þurfa að verjast og hefur hjólað í með stefnu og himinhárri skaðabótakröfu. Það verður athyglisvert að fylgjast með því sjónarspili sem Ægir mun setja af stað í kringum það mál og hvað hann mun komast upp með í þetta sinn.

Það merkilegasta samt í öllu þessu stefnutali er að ekkert bólar á þeim kærum sem Ægir hefur hótað okkur sem Pressan hefur fréttirnar um hann eftir. Þar virðist kæruleiðin ekki hugnast Ægi sem „rétta leiðin“ enda hætt við að þær kærur gætu sett strik í þá fyrirhöfn sem Ægir hefur lagt á sig síðasta ár við að beina athyglinni að öllu öðru en þeim grafalvarlegu ásökunum sem á hann eru bornar.

Ægi Geirdal virðist allavega orðið ljóst að hörmungarslóðin sem hann skilur eftir sig þagnar ekki. Hún mun ekki heldur gera það þótt honum takist mögulega að þagga niður í fjölmiðlum. Glæpir hans fyrnast enda hvorki né afmást í þögn og ábyrgðarleysi samfélags sem hangir í að gömul eða ný níðingsverk gegn börnum séu ekki gild sem slík í réttaríkinu af því að það hefur ekki búið til leiðir sem henta þessum glæpum.

Glæpaslóð Ægis er mjög auðrekjanleg um leið og til verður áhugi og opnaðar leiðir til að rekja hana.

Ingibjörg og Sigurlína

http://www.dv.is/frettir/2011/10/20/aegir-geirdal-stefnir-ritstjora-pressunnar-thad-er-ekki-annad-haegt/

http://www.visir.is/gardurinn-lagdur-i-rust---kemst-ekki-inn-til-sin/article/2011110809966

http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Innlent/aegir-geirdal-kaerdur-til-logreglu-fyrir-ad-bera-sig---vitni-bidur-doms-fyrir-ad-leggja-hendur-a-manninn

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S201100500&Domur=3&type=1&Serial=1&Words=

http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Innlent/aegi-geirdal-daemdar-miskabaetur---domarinn-trudi-honum-ekki---atok-i-kjolfar-asakana-um-barnanid

http://www.asi.is/Portaldata/1/Resources/vinnurettur/haestirettur/2004.374.pdf

Friday, September 23, 2011

Sýnishorn af réttum Ægi Geirdal birtist almenningi

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/aegir-geirdal-kaerdur-til-logreglu-fyrir-ad-bera-sig---vitni-bidur-doms-fyrir-ad-leggja-hendur-a-manninn

Við verðum hryggar í hvert sinn sem við heyrum ofbeldissögur af Ægi Geirdal og enn hryggari við tilhugsunina um að hann hafi komist upp með þá slóð áratugum saman. Við leyfum okkur því að fagna að náðst hafi myndir sem gefa örlítið sýnishorn af réttum Ægi Geirdal og þær birtar almenningi. Þótt við reiknum ekki með að hér séu sýndar grófustu myndirnar sem náðust af Ægi, að við tölum ekki um það sem vitum að hann hefur gert þegar hann passar vel upp á að enginn sjái til, þá leyfum við okkur líka að vænta þess að það styttist í að þær grafalvarlegu ásakanir sem á manninn hafa verið bornar lengi verði á endanum teknar alvarlega í kerfinu.

Við tökum ofan fyrir nágrönnum Ægis Geirdal fyrir að kyngja ekki ofbeldinu og þeim blekkingum sem hann hefur lagt sig í líma við að hafa uppi síðustu misseri. Við höldum líka áfram að hvetja alla þá sem eru með upplýsingar um ofbeldisslóð Ægis að stíga fram.

Við systur höfum mikið reynt til að koma réttum upplýsingum um Ægir á framfæri áratugum saman. Það eru margir sem hann hefur stefnt í gegnum árin og hann hefur líka hótað að stefna okkur. En hvar er sú stefna og hvers vegna skyldi hún ekki berast ????

Ofbeldismenn geta ekki vaðið uppi nema samfélagið gefi leyfi fyrir því.

Ingibjörg og Sigurlína

Monday, August 1, 2011

Ægir Geirdal Gíslason

Ægir Geirdal sjálfum sér líkur

Eitthvað könnumst við nú við þessa takta Ægis Geirdal. Eins og við þekktum hann í Garðabæ var hann vanur að hafa mikla stjórn á fólkinu í kringum sig og gekk yfir það eins og honum sýndist. Ef hann taldi sig ekki hafa stjórnina eða var bara þannig stemmdur sýndi hann gríðarlega útsjónarsemi við að fá sitt fram.  Hér eru fjögur dæmi:
·     Eitt vorið í Garðabæ hvatti Ægir einn bróður okkar og hjálpaði honum við að útbúa lítinn matjurtargarð í innkeyrslunni hjá okkur.  Bróðir okkar lagði sig mikið fram með þessum fullorðna vini sínum í garðinum sem kenndi honum öll réttu handbrögðin. Ægir lagði mikla áherslu á það við drenginn að hugsa vel um garðinn daglega til að fá góða uppskeru. Litli bróðir gerði það með mikilli natni og beið síðan spenntur eftir uppskerunni. En um það leiti sem fyrstu kartöflugrösin litu dagsins ljós sagðist Ægir hins vegar skyndilega þurfa á þessu plássi að halda undir bílinn sinn. Hann hikaði ekki við að eyðileggja þennan fjársjóð drengsins en með loforðum um að bæta honum þann skaða með gjöfum sem hann mátti velja sér sjálfur. Þær gjafir sáust aldrei. Bróðir okkar var einhverstaðar í kringum 7 ára aldurinn þegar þetta atvik átti sér stað.   

·      Þegar við fluttum í Garðabæ leigðu foreldrar okkar herbergi á efri hæðinni hjá Ægi og fjölskyldu fyrir eina dóttur sína, sem þá var unglingur. Einhverra hluta vegna líkaði Ægi ekki við veru hennar á hans umráðasvæði. En aðferðirnar við að koma því á framfæri voru mjög óvenjulegar og ógeðfelldar. Hann plantaði sér fyrir framan dyrnar hjá henni, þar sem hún lokaði sig af inni í herberginu sínu, og ógnaði henni með mikilli kynferðislegri áreitni. Hún kvartaði undan þessari hegðun og var losuð úr prísundinni af foreldrum sínum.

·      Þegar Sigurlína var um 13 ára aldurinn reyndi Ægir mikið til að ná völdum yfir henni kynferðislega. Hún var hrædd við þennan mann og tókst þess vegna að flýja þessar áætlanir hans.  Þá umpólaðist Ægir sem hafði verið hinn mesti ljúflingur við þessa stúlku fram að því og sat fyrir henni hér og þar til að koma því rækilega til skila til hennar hversu lítilmannleg og ómerkileg hún væri. Hann hætti þessu ekki fyrr  en hann var búin að brjóta þessa ungu sál algerlega í tætlur.  
 
·      Þegar Ingibjörg var 11 ára taldi hún sig vera sloppna frá ofbeldi Ægis. Hann sat fyrir henni þann dag, eins og svo oft áður, en í það skipti tókst henni að huga sig upp í að hlaupa í ofboði framhjá honum og öskra „NEI!“ Þetta var í fyrsta skiptið sem hún réði við skrímslið. En hún fagnaði of snemma því stuttu seinna rændi Ægir henni þar sem hún var úti að leika sér með krökkunum í hverfinu og keyrði hana lengst út í Krísuvík. Þar lamdi þessi fullorðni maður barnið, sagðist ætla að skilja það eftir í auðninni og hótaði því öll illu ef það vogaði sér að segja einhvern tímann frá þeirra samskiptum. Ægir þurfti ekkert að fremja þetta barnarán og barsmíðar til að tryggja sig. Hann var þá þegar búinn að tryggja sér þögn Ingibjargar með því að brjóta hana rækilega niður og koma ábyrgðinni á níðinu fyrir í barnssálinni. Eftir á, þá er það samt einhvern veginn bara í stíl við Ægir að ganga svona langt.
Nú eru það nágrannar Ægis sem láta ekki að hans stjórn.  Við höfum upplýsingar um að hann hafi byrjað að upplifa þá ógn í lífi sínu daginn sem þessir einstaklingar þóttu ásakanir okkar systra gegn honum trúverðugar. Síðan þá hefur maðurinn lagt í ómælda vinnu við að sviðsetja hinar ýmsu ofsóknir og árásir á sig af þeirra hendi. Sviðsetja segum við, skrifum og fullyrðum því það er ekki eitt efakorn í okkar huga um að uppákoman í garðinum hjá Ægi sé hans eigið verk.
Í fljótu bragði ætti fólki að þykja það skrýtið að hann segist gruna nágranna sína um þessar nýjustu ofsóknir gegn sér. Það eru nefnilega við systur sem ættum að kom upp í huga hans sem  óvinir hans númer eitt. Hefðum við haldið miðað við hinar endalausu og tilhæfulausu ofsóknir okkar gegn honum, að hans sögn.  Ekki satt?
Að fara í slag við okkur systur myndi hins vegar draga athyglina að þeim grafalvarlegu ásökunum sem við berum Ægir og höfum gert áratugum saman. Það hentar ekki söguþræðinum sem hann er að búa til núna. Hann virðist einmitt leggja sig í mikinn líma við að beina athyglinni frá þessum ásökunum með því m.a. að búa sér til óvini úr saklausu fólki, ögra því út í eitt til að beita sig ofbeldi og fyrst það gengur illa, setja það á svið.
Fórnarlambið Ægir sem allir eru svo vondir við? Nei, útsmoginn Ægir sem leggur mikið á sig til að draga athyglina frá sinni eigin skelfilegu glæpaslóð. Og nei, það kemur okkur ekki á óvart hversu langt hann gengur í siðleysinu.
„Ég get alveg hagað mér svona en ég fer réttu leiðina og kæri“ segir Ægir. „Já er það?“ spyrjum við systur á móti. Hún er nú búin að vera ansi lengi á leiðinni frá honum kæran á okkur sem hann segir hafa setið um mannorð sitt ár eftir ár eftir ár. Og ekki sést hún enn kæran sú. Það væri forvitnilegt að heyra svar Ægis við því hvers vegna ekki?
Okkur systrum þykir skelfilegt að heyra af framkomu Ægis Geirdal gagnvart nágrönnum sínum í Vogunum og okkur hrýs hugur við því að þessi hættulegi maður skuli hafa aðgang að skotvopni.  
Eins og áður hvetjum við alla þá sem hafa upplýsingar um glæpsamlega hegðun Ægis af einhverju tagi að stíga fram. Leyfum honum ekki að ganga lengra í ofbeldinu en nú þegar er. Sú slóð er meira en nógu slæm nú þegar.

                                                                                                                              Ingibjörg og Sigurlína

Sunday, July 31, 2011

Er hægt að vera hlutlaus þegar kemur að barnaníði?

Það eru ekki svo mörg ár síðan ég trúði því að fólk yfir höfuð væri vel innrætt, þess vegna  kom það eins og hálfgert sjokk þegar mér varð ljóst að svoleiðis væri það alls ekki.
Ég hélt líka að sérstaklega fjölskyldur, bræður og systur, tengdust einhverjum sérstökum böndum og myndu standa saman þegar á reyndi, aftur hafði ég rangt fyrir mér.

Svo virðist sem stór hópur fólks sé einungis annt um það hvernig þeirra eigin lífi er háttað, og er ekki tilbúið til að leggja á sig þau óþægindi sem það kostar að upplýsa um glæp sem einhver innan fjölskyldunnar hefur framið, sama á hverjum það bitnar.

Ennþá í dag lifir sú von í mér að all flestir fyllist viðbjóði og sorg þegar þeir lesa um glæpi gegn börnum. Ég vil ekki trúa því að fólki sé sama og finnist þetta ekki koma sér við.
Þess vegna verð ég svo sorgmædd þegar ég verð vitni af því að meðlimir úr minni eigin fjölskyldu tilheyri þeim hóp sem er alveg sama.

Á sama tíma og það brennur í mér vilji til að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið og tryggja umhverfi barna, notar fólk sem er blóðskylt mér alla sína orku til að sjá til þess að ekkert breytist.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að með þessum sterku skoðunum mínum fylgja afleiðingar, að hluti af minni eigin fjölskyldu mun ekki vilja hafa nein samskipti við mig, ég verð baktöluð og einhverjir eiga eftir að tala um mig sem klikkaða. En ef það er kostnaðurinn við það að fylgja minni eigin sannfæringu, þá er það bara eitthvað sem ég þarf að fórna því ég ætla ekki að taka þátt í þessum feluleik.

Að vera hlutlaus?

Er það raunhæft? Er hægt að segja, og meina það í leiðinni, að manni þyki þetta leitt, rangt, skelfilegt, sorglegt og að maður styðji við bakið á einhverjum sem hefur orðið fyrir glæp,  þegar maður býr yfir upplýsingum sem geta hjálpað en kýs að þegja yfir þeim. Er maður þá ekki í raun að kjósa að standa frekar með og hlífa ofbeldismanninum?

Er það ekki siðferðisleg skylda allra að vernda börn sem geta það ekki sjálf?

Það er vont hvað margir vilja bara halda friðinn "no matter what" því í þeim þrúgandi friði er uppreisnin kæfð og án uppreisnar bætum við ekki heiminn.

Einhver sagði „Maður velur sér vini en ekki fjölskyldu“  bókstaflega er það rétt, en miðað við þá merkingu sem ég les úr orðinu fjölskylda get ég ekki verið sammála.

Mig langar til að hvetja alla sem hafa einhverja vitneskju um glæpi sem tengjast Ægi Geirdal, eða einhverjum öðrum glæpum sem tengjast börnum að stíga fram, þitt hugleysi getur skaðað sál sem getur ekki varið sig sjálf.


Soffía Bæringsdóttir


http://reynslusaga.blogspot.com/

Monday, May 30, 2011

Orð eru stútfull af merkingu sem gefa skilaboð út í samfélagið

Takk fyrir umræðuna um barnaníð. Níðið er raunverulegt í heimi barna og við þurfum að treysta okkur til að tala um þá staðreynd og taka á henni.

Við endurtökum að það geti vel verið flott fyrir fullorðið fólk að velja fyrirgefningu sem sína leið að eigin frelsi, ef það vill, svo framarlega sem það er ekki á kostnað varnarlausra barna. Það er endalaust mikilvægt að fólk átti sig á  muninum á heimi og valdi barna og fullorðinna þegar kemur að þessari umræðu og því hver munurinn er á fyrirgefningu og meðvirkni eins og áður hefur komið fram.
Við ítrekum líka það sem við segjum í okkar pælingum um fyrirgefningu í kringum barnaníð að börn lifa í heimi þar sem fullorðnir ákveða leikreglurnar og setja leiðardæmið í samskiptum. Barn sem lifir í umhverfi þar sem hætta er á ofbeldi sem fullorðið fólk leitast hvorki við að koma í veg fyrir né stöðva, hefur ekkert val eða vald til að velja fyrirgefningu og frelsi. Fram á fullorðinsár leitar það einfaldlega leiða til að lifa ofbeldið af og það er fyrst þá sem við öðlumst alvöru val og vald til að taka ábyrgð eigin lífi. Talið er að það séu um 17% íslenskra barna sem er svo óheppin að búa við þessar aðstæður.
Við endurtökum líka að flestir þeir sem meiða börn tengjast þeim á einhvern hátt. Stundum eru það foreldrar þessara barna. Tilhugsunin um það er alveg skelfilega vond staðreynd sem óskandi væri að gæti bara horfið. En hún gerir það ekki og það er mörgum allt of dýrkeypt ef við höldum áfram að tipla á tánum í kringum þessi mál eins og köttur um heitan graut. 
Forvarnarstarf fyrir börn í tengslum við kynferðislegt ofbeldi er sem betur fer vaxandi og fleiri börn en áður sem hafa kjark til að segja frá. Ennþá lifum við samt í heimi þar sem börnin finna sig sjaldnast örugg til að segja frá ofbeldi sem þau lifa við og hafa heldur ekki forsendur til þess. Því er það skelfilega oft sem ábyrgðinni er ekki skilað þangað sem hún á heima fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum seinna. Þá standa aðrir fullorðnir í kringum þolendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu gagnvart ofbeldinu og þeim sem því beita. Fólki sem það hefur treyst, þykir jafnvel mjög vænt um og tengist hagsmunaböndum. Þetta eru vondar aðstæður sem enginn vill vera í. Enn og aftur segja staðreyndirnar okkur líka það að allt of margir sem standa frammi fyrir svona áskorun, velja að takast ekki á við hana og finna sér réttlætingar til að fría sig frá því.
Það þýðir að í samfélaginu er sú leið allt of oft valin að leyfa barnaníði að viðgangast  vegna þess að við erum með svo mikið af fullorðnu fólki sem treystir sér ekki til að takast á við það sem blasir við okkur í þessum málum.

Það á klárlega sinn þátt í því að í hópi 20 barna eru meiri líkur en minni að það sé verið að níðast, eða eigi eftir að níðast, á a.m.k. 3 til 4 þeirra. Líka það að ef manneskja sem beitir barnaníði er ekki stoppuð af eru meiri líkur en minni að hún beiti fleiri börn níði. Þannig að, ef við samþykkjum þá nálgun að ekki skuli segja til barnaníðinga af  meintri tillitssemi við aðstandendur þeirra þá er það á kostnað þeirra barna sem eiga eftir að lenda í þeim níðingum.

Sjúkdómsvæðingin í kringum barnaníðinga er engum góð. Ekki þeim sem meiða börn og fá þá ekki tækifæri til að axla ábyrgð á sjálfum sér í því sambandi og alls ekki þeim sem sitja uppi með þá ábyrg fyrir þá. Við höfum sagt það áður og endurtökum hér að ef það er sjúkdómur sem framkallar ofbeldisverk barnaníðinga þá inniheldur sá sjúkdómur mikinn, viðvarandi skipulagshæfileika og einbeittan brotavilja. Barnaníð er glæpur og ef við fullorðna fólkið hættum ekki að sjúkdómsvæða þann glæp þá höldum við áfram að samþykkja það að sum börn séu bara svo óheppin að sitja uppi með að sinna svona sjúklingum.

Við endurtökum það enn og aftur að við þurfum að gera skýran greinarmun á heimi barna og fullorðinna til að geta í alvöru verndað börn. Það reynist mörgum erfitt og þess vegna er svo gott að í dag er hægt að fá leiðsögn í að standa undir því nafni að bera ábyrgð á börnum.  

Við ítrekum líka hversu frábært það er að vera það fullorðinn að geta sett utan um sig girðingar varðandi það hverjir fá að umgangast okkur og gerum þá kröfu að fullorðið fólk leggi sig í líma við að verja öll börn í kringum okkur á sama hátt. Þess vegna getum við alls ekki samþykkt fyrirgefningu ef hún felur jafnframt í sér meðvirkni.

Þá verður ekki komist hjá því að benda á að tilhneigingin til að gera lítið úr níðingsverkum fólks sem er dáið stendur ekkert undir sér og það er einfaldlega ekki á hendi þolenda að semja grafskrift ofbeldismanna sinna. Þeir hafa sjálfir skrifað sína sögu og henni verður ekki breytt hvort sem þeim er gefið nöfn í bókum sem um þá eru skrifaðar eður ei. Er ekki einmitt rökrétt að álykta sem svo að Gróu á Leiti sé gefið rækilega undir fótinn ef söguþráður slíkra bóka byggir á hálfkveðnum vísum?         

Ingibjörg og Sigurlína

Friday, May 27, 2011

Pælingar um fyrirgefningu


Okkur langar að þakka Heiðu fyrir eftirfarandi innlegg í umræðuna um barnaníð: http://www.bleikt.is/Fjolskyldan/Lesagrein/fyrirgefningeittoflugastaverkfaerifornarlamba/


Að sumu leyti getum við ekki verið meira sammála því sem hún er að segja á meðan annað fær hárin á höfðinu hreinlega til að rísa. En það sem við þurfum svo sárlega er umræða, upplýsingar og enn meiri umræða um barnaníð og annað ofbeldi. Með því náum við skilningi á eðli þessa ljóta glæps, getum frekar leitt þá áfram sem fyrir honum verða, sett upp girðingar fyrir börn til að draga úr líkum þess að þau verði þolendur glæpsins og látið þá sem fremja barnaníð axla á því ábyrgð.      


Orð í heimi fullorðinna
Heiða talar um fyrirgefningu sem eitt öflugasta vopn sem nokkurt fórnarlamb ofbeldis getur beitt fyrir sig. Fyrirgefningin sem slík er öflug leið þar sem hún á við en við þurfum alltaf að spyrja hvaða meining er á bak við orðið þegar það er notað og í þágu hvers. Það er t.a.m. dásamleg frelsisstund fyrir okkur, sem höfum lifað af svona ofbeldi, þegar við náum því að umvefja barnið í sjálfum okkur með ást og hlýju í þeim skilningi að ofbeldið sem við upplifðum sem börn hefur akkúrat ekkert með okkur sjálf að gera. Það er engin smá sjálfsfyrirgefning fólgin í því og það er hún sem er grunnurinn að frelsinu.

En þessi frelsisstund á sér því miður yfirleitt ekki stað fyrr en við erum orðin fullorðin og búin að fá aðstoð við að átta okkur á þeim staðreyndum. Börn lifa nefnilega í heimi þar sem fullorðnir ákveða leikreglurnar og setja leiðardæmið í samskiptum. Barn sem lifir í umhverfi þar sem hætta er á ofbeldi sem fullorðið fólk leitast hvorki við að koma í veg fyrir né stöðva, hefur ekkert val eða vald til að velja fyrirgefningu og frelsi. Það einfaldlega leitar leiða til að lifa ofbeldið af. Talið er að 17% íslenskra barna séu svo óheppin að lenda í barnaníði og undantekningarlítið taka þau sjálf ábyrgð á ofbeldinu. Hvernig ætli þessi börn upplifi umræðu um fyrirgefningu?

Ef við skiljum Heiðu rétt, þá var hún fullorðin þegar hún valdi fyrirgefninguna sem sína leið. Það er rökrétt og um leið ákaflega mikilvægt að fólk átti sig á  muninum á heimi og valdi barna og fullorðinna þegar kemur að þessari umræðu.

Pirrandi krafa um að gerendur taki ábyrgð á eigin gjörðum  

Heiða kemur jafnframt inn á að henni finnist umræðan um kynferðisofbeldi einsleit og einkennast af því að fórnalömb séu þar ofan á í þeirri þörf að fá viðurkenningu á hegðun gerenda. Við skiljum vel að hún sé pirruð á þeirri umræðu. Við erum það líka en mjög líklega af öðrum ástæðum.

Það er svo ofboðslega stutt síðan samfélagið fór að leyfa umræðu um ofbeldi gegn börnum og umræðan sem slík er mörgum erfið. Væntanlega að stórum hluta vegna þess að flestir þeir sem meiða börn tengjast þeim á einhvern hátt. Þar sem börnin finna sig síðan sjaldnast örugg til að segja frá ofbeldinu, kemur það yfirleitt ekki á yfirborðið fyrr en mörgum árum og jafnvel áratugum seinna að ábyrgðinni sé loks skilað þangað sem henni ber að vera. Þá standa aðrir fullorðnir í kringum þolendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu gagnvart ofbeldinu og þeim sem því beita. Fólki sem það hefur treyst, þykir jafnvel mjög vænt um og tengist hagsmunaböndum. Þetta eru vondar aðstæður sem enginn vill vera í. Staðreyndirnar sýna  okkur líka að allt of margir sem standa frammi fyrir svona áskorun, velja að takast ekki á við hana og finna sér réttlætingar til að fría sig frá því. Þá kemur oft upp sú krafa að í stað þess að láta og leyfa gerendum að axla sína ábyrgð, að þolendunum er stillt upp, loks þegar þeir tala, og sett er á þá sú krafa að fyrirgefa og gleyma eða halda sig úti ella. Ekki fullorðinsleg nálgun finnst okkur og getur ekki leitt til annars en að þolendur sem eru farnir að vinna í sjálfum sér haldi mjög á lofti þeirri kröfu að ofbeldinu gegn þeim linni.

Eins og áður segir þá er svo stutt síðan það mátti ekki einu sinni segja „barnaníð“ upphátt. Við erum komin vel af stað með vinnu fyrir konur sem þolendur, mjög stutt með karla sem þolendur og skelfilega stutt í forvarnarstarfi gagnvart börnum sem eru í hættu þegar kemur að barnaníði. Sífellt háværari krafa um að fórnarlömb fái viðurkenningu á hegðun gerenda segir okkur að það styttist í að við breytum því leiðardæmi og förum að beina athyglinni í auknum mæli að gerendum og öllu fullorðna fólkinu sem í raun leyfir barnaníði að viðgangast með því að treysta sér ekki til að takast á við það sem blasir við okkur í þessum málum. Þangað til verður umræðan líklega áfram einsleit og örugglega bæði vond og pirrandi fyrir marga.           


Val og vald fullorðinna

Heiða talar líka um að henni finnist of margir nota sára reynslu til að takast ekki á við eigið líf og noti jafnvel „aumingja þú“ viðhorfið, sem virðist vera samþykkt í samfélaginu, sem afsökun fyrir röngum ákvarðanatökum og því sem miður fer í eigin lífi. Mikið ofboðslega erum við sammála henni þar. En við endurtökum þetta með hversu mikilvægt það er að gera greinarmun á því vali og valdi sem barn og fullorðið fólk hefur völ á. Skelfileg reynsla í æsku tekur ekki frá okkur ábyrgð á eigin lífi þegar við vöxum upp og við eigum heldur ekki að samþykkja slíkt. Það er nefnilega nákvæmlega þá sem við getum farið að axla eigin ábyrgð, taka ákvarðanir að okkar vali og standa undir afleiðingum þeirra.

Ef líf okkar á fullorðinsárum einkennist af ótta, kvíða, reiði, biturð, hræðslu við að láta annað fullorðið fólk axla sína ábyrgð, annarskonar meðvirkni eða bara upplifun sem hamlar okkar eigin þroska og flæði þá eru það augljósar vísbendingar um að eitthvað sé ekki að gera sig í okkar eigin lífi. Þá er það á okkar ábyrgð að leiðrétta kúrsinn, átta okkur á hvað gerir okkur að því sem við erum og hvað við þurfum að gera til að geta verið það sem við viljum vera og bara notið lífsins sem fullorðið fólk. Ef ekki fyrir okkur sjálf, þá fyrir börnin okkar og annarra því við erum enginn smá áhrifavaldur í þeirra lífi... fram á þeirra fullorðinsár. Frelsið sem fylgir svona sjálfsábyrgð er undursamlegt. Sérstaklega þegar fólk áttar sig á að annarra fullorðinna manna ótti við að horfast í augu við sig sjálft er þeirra eigin ótti, ekki okkar, auk þess sem mikla hjálp er að fá í dag fyrir þá sem það velja.


Að setja upp girðingar í samskiptum

Heiða fann sjálfsábyrgð sína í gegnum fyrirgefninguna og læknaði sjálfa sig með því að sækja hana til sjálfrar sín, fyrirgefa sjálfri sér og öðrum. Hún tekur það jafnframt skýrt fram að með því sé hún ekki að samþykkja ofbeldið sem hún var beitt sem barn. Við vorum mjög fegnar að lesa þá setningu þótt Það fylgi reyndar ekki skýring á því hér hvað hún á við með því. Við höfum allt of oft heyrt fólk nota þetta orð hreinlega til að fría sig ábyrgð á því að taka afstöðu og erfiðar ákvarðanir. Það finnst okkur ekki mjög fullorðins. það er nefnilega ákaflega þunn lína á milli fyrirgefningar og meðvirkni og hún þarf að vera okkur ljós þegar við notum orðið fyrirgefning.

Þegar við erum meðvirk gagnvart fólki sem beitir ofbeldi getur það t.d. birst í því að við samþykkjum hegðun þess með því að taka ábyrgðina á okkur sjálf, setjum hana á aðra eða aðstæður, gerum lítið úr vægi ofbeldisins, teljum okkur trú um að það sé betra fyrir aðstandendur að láta kyrrt liggja, afneitum ofbeldinu eða gerum ekki kröfur á að það stoppi, afgreiðum það sem búið og gert, reiknum ekki með því að ofbeldismanneskjan sé að beita aðra ofbeldi og neitum því jafnvel þótt það blasi við okkur og svo framvegis og framvegis. Í meðvirkni felst því fyrst og fremst mismikil eftirgjöf en ekki krafa um að fullorðið fólk taki ábyrgð á sjálfu sér. Í fyrirgefningu felst hins vegar bæði mikil heilun eins og áður hefur komið fram og krafa um ábyrgð á fullorðið fólk. Ábyrgðin nær ekki síst til þess að girða milli þeirra sem við erum að fyrirgefa fyrir okkur sjálf og mögulegra fórnarlamba þeirra.

Heiða talar einmitt um í sambandi við hennar frelsi að hún sé mjög vandlát á þá sem hún velur að hafa í kringum sig og að það nái jafnt yfir þá sem eru henni blóðskyldir og ekki. Það er frábært að vera það fullorðinn að geta sett utan um sig girðingar á þennan hátt og valið hverjir eru velkomnir þar inn og hverjir ekki. Væri ekki dásamlegt ef við legðum okkur mikið fram um að verja öll börn í kringum okkur á sama hátt?   

Þegar fólk velur sér afstöðu
Talandi um girðingar í samskiptum þá kemur hér að þeim hluta þar sem við erum ákaflega ósammála Heiðu. Þeim þar sem hún talar um að hún sjái ekki tilganginn í að gefa uppi hverjir ofbeldismenn úr hennar barnæsku eru. Hún velji þá afstöðu af virðingu við þeirra nánustu og rökstyður það með því að segja að hún vilji ekki særa börn þeirra og fjölskyldur. Þetta eru skelfilega vond skilaboð til allra barna og fullorðinna sem búa við ofbeldi og líka til aðstandenda ofbeldismanna. Af hverju? Vegna þess að enn og aftur er athyglinni beint að þolendum og aðstandendum ofbeldismanna í stað þeirra sjálfra og virðing og líðan þessa fólks sett á ábyrgð þolenda. Gjörningurinn sjálfur er um leið kæfður í því rugli.

Við þorum að fullyrða að barn sem nú þegar telur sig eiga skilið ofbeldi sem það býr við er fljótt að grípa þessa umræðu til að staðfesta þá ábyrgð sína og sektarkennd.

Orðræðan virðist ekki ennþá ná utan um þá staðreynd að þegar fólk velur (takið eftir: velur) að níðast á börnum er ofbeldismaðurinn um leið líka að velja að meiða alla sem tengjast  honum tilfinningaböndum. Það er þá sem glæpurinn er framinn en ekki þegar sagt er frá honum, hvort sem sú tjáning kemur fram strax eða 50 árum seinna. Sá sem segir frá glæpnum er ekki sá seki, heldur sá sem framdi hann og sökin felst heldur ekki í kröfunni um að ofbeldismaðurinn axli ábyrgð á eigin glæp. Er þetta ekki mjög skýrt? Segjum að löngu týndur ættingi þinn, sem allir eru búnir að afskrifa,  finnist grafinn í garðinum þínum 30 árum eftir að hann hvarf. En um leið og líkið finnst fara af stað kyrfilega bældar tilfinningar og minningar sem leiða fólk að hinum rétta söguþræði og morðingjanum. Hvað skal þá gera?  

Tökum afstöðu út frá staðreyndum
Þetta er ekkert grín enda er barnaníð grafalvarlegur glæpur og staðreyndirnar tala sínu máli. Þær segja að ef við höfum 20 börn fyrir framan okkur séu meiri líkur en minni að það sé verið að níðast, eða eigi eftir að níðast, á a.m.k. 3 til 4 þeirra. Staðreyndirnar segja líka að ef manneskja sem beitir barnaníði er ekki stoppuð af eru meiri líkur en minni að hún beiti fleiri börn níði. Þannig að, ef við samþykkjum þá nálgun að ekki skuli segja til barnaníðinga af  meintri tillitssemi við aðstandendur þeirra þá er það á kostnað þeirra barna sem eiga eftir að lenda í þeim níðingum.

Hugsanlega er hægt að fyrirgefa barnaníð, á þann hátt að hlífa ofbeldisfólkinu við að taka ábyrgð á gjörðum sínum, ef þolandinn veit fyrir víst að níðið sem hann upplifði hafi byrjað og endað í honum sjálfum. Eða ef hann veit fyrir víst að búið er að setja upp girðingar í kringum þau börn sem gerandinn hefur aðgang að. Ef ekki, nýtur ofbeldismaðurinn vafans en ekki börnin og þá erum við líka að tala um meðvirkni en ekki fyrirgefningu og alls ekki tillitssemi.

Leið meðvirkninnar er svo sem ekki ný nálgun þegar kemur að þessum glæpum heldur er það leiðardæmið sem hingað til hefur verið ofan á. Leiðardæmi sem er ekki að virka til að vernda börn fyrir barnaníði og þarf að skipta út.

Veljum að vernda börn gegn ofbeldi

Heiða tjáir sig einlæglega um það hvernig hún segist elska móður sína skilyrðislaust m.a. vegna þess að hún veit að þegar móðirin beitir ofbeldi með orðum er hún að lýsa eigin líðan, ekki hennar. Heiða gefur líka i skyn að móðir hennar sé geðveik og ekki ábyrg gjörða sinna. Í því ljósi hefði einhver átt að grípa inn í aðstæður Heiðu sem barns, en gerði augljóslega ekki. Í dag lifir Heiða sjálfstæðu lífi sem fullorðin manneskja, óháð ábyrgð eða áhrifum móður sinnar nema hún kjósi það sjálf. Hún hefur því val um að taka þessa æðrulausu afstöðu til móður sinnar sem fullorðin manneskja.

En í afstöðunni felst jafnframt sú ábyrgð að ef einhver börn eiga enn sitt undir móður Heiðu, að hún leitist við að girða fyrir að þau verði þolendur ofbeldis móðurinnar, ef það er hennar stíll að beita slíku. Ef Heiða gerir það ekki, einkenndist ást hennar á móður sinni ekki af æðruleysi heldur ábyrgðarleysi. Enn og aftur er það vegna þess að börn hafa ekki val um að velja sínar aðstæður og framvindu á sama hátt og við fullorðna fólkið getum gert og eigum að gera í eigin lífi. Þess vegna er það skýlaus réttur barna að fullorðið fólk verndi þau og tali þeirra máli.

Ef við metum það sem svo að fyrirgefningin sé leiðin til að bjarga okkur sjálfum í lífinu, þá er það bara flott, svo framarlega sem það er ekki á kostnað þeirra barna sem lifa við ofbeldi og hafa ekki val um að komast út úr því. Við getum einfaldlega ekki leyft okkur að gera okkar fullorðinsaðstæður að þeirra. Þegar kemur að barnaníði erum við að tala um mörg börn og fæst þeirra segja frá. Ef við fullorðna fólkið fyrirgefum án ábyrgðar á þessum börnum, hvers eiga þau þá að gjalda og hver situr uppi með ábyrgðina?  

Takk aftur Heiða fyrir þitt innlegg og upp með umræðuna um barnaníð og annað ofbeldi.
Lifum heil,
Ingibjörg og Sigurlína

Saturday, May 7, 2011

Kerfið gengst við því að barnaníðingar séu hættulegir umhverfinu

Það er frétt í Pressunni í gær um að manneskja sem verið hefur að níðast kyn­ferðis­lega á börnum hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á þeim grundvelli að hún sé hættuleg umhverfinu.
Vá þetta er ný setning frá kerfinu þegar kemur að barnaníðingum. Hjörtu okkar gleðjast, fagna áfangasigri og trúa að það styttist í fleiri framfaraskref frá þessu sama kerfi.
Fjölmiðlar fjalla líka um það í dag hvernig Þjóðkirkjan er loks að reyna að standa í lappirnar þegar kemur að kynferðisníði og taka ábyrgð á ofbeldisfullri þöggun á þeim bæ. Við reiknum með að réttarkerfið fylgist með og tileinki sér eitthvað af þessum vinnubrögðum svo það geti staðið siðferðislega undir því nafni sem því hefur verið gefið.
Þegar kemur að brotum Ægis Geirdal þá eru það svo margir sem þekkja til þeirra og enn fleiri sem efast ekki um sannleiksgildi þeirra. Það sem vantar upp á er að kerfið, sem við höfum búið okkur, taki það alvarlega, lagi sig að því að geta fylgt upplýsingunum eftir og gangi hreinlega á eftir því að fullorðið fólk segi satt þótt það sé kúgað og hrætt. Allt eins og væntanlega væri gert ef um líkamsmorð væri að ræða. Hvers vegna? Vegna þess að á bak við alla þessa sögu eru manneskjur sem verið er að brjóta á og fórna. Hugsið ykkur börnin sem eiga engan séns á að stíga fram á meðan fullorðna fólkið hefur ekki kjarkinn til þess.
Ægir Geirdal er svo sannarlega hættulegur umhverfinu og níðingsslóð hans er svo auðrekjanleg að það er í raun með ólíkindum að það skuli ekki vera búið að stöðva manninn. Þar til það gerist valsar hann um samfélagið í fullum lagalegum rétti, samfélagi sem tiplar á tánum framhjá níðingsslóð hans og viðheldur með því skelfilegu ofbeldi.
Í janúar á þessu ári var okkur, sem tölum hátt um sannleikann í kringum Ægi, hótað dómsmáli. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Það er vel hægt að ímynda sér að það sé vegna þess að með því að láta reyna á slíkt tekur ofbeldismaðurinn stóran séns á að fletta endanlega ofan af sjálfum sér og missa tökin á meðvirknihópnum í kringum sig. Þöggunarmúrnum sem hann hefur hlaðið. Úbbs og þá gæti hann staðið frammi fyrir því að þurfa að taka sjálfur ábyrgð á ofbeldisgjörðum sínum. Stór séns fyrir mann sem hefur ekki hikað við að fara í mál við allt og alla í gegnum tíðina, nema þá sem í meira en 20 ár hafa reynt að fá samfélagið til að taka við réttum upplýsingum um hann.
Auðvitað eru það vondar fréttir í sjálfu sér að eftirlifendur ofbeldismanna eins og Ægis skuli gleðjast yfir hótunum um að verða dregnir fyrir dóm fyrir að segja satt. Þannig útspil væri í raun samt einungis viðbót við þær hindranir, áhugaleysi og ofbeldi sem hefur mætt okkur við að fá samfélagið til að hlusta á þessa ljótu sögu. Dómsmálshótunum er líka tekið þannig og í þeirri von að kannski væru þær skrefið sem vantar upp á til að loks verði tekið í hnakkadrambið á barnaníðingnum Ægi Geirdal á þeim forsendum að hann er hættulegur umhverfi barna.
Við trúum því í einlægni að með aukinni meðvitund og virkri baráttu allra þeirra sem í alvöru stendur ekki á sama um þessi mál munum við sigla inn í tíma þar sem svo sannarlega verður raunhæft að segja: „fólk í okkar samfélagi kemst ekki upp með að níðast á börnum, sama hvaða brögðum það beitir.“
Góðu fréttirnar eru áfangasigrarnir sem eru að nást á þessari leið og þeim fögnum við innilega.   
Bjartsýniskveðjur inn í sumarið,
Ingibjörg og Sigurlína

Tuesday, February 22, 2011

Að gefnu tilefni

það er ekkert annað en tilraun til þöggunar og algerlega óásættanleg hegðun, af fullorðnu fólki sem veit betur, að fara fram á að glæpir Ægis Geirdal séu sussaðir niður sem fjölskylduharmleikur. Fyrir utan vanvirðinguna sem fórnarlömbum  hans utan fjölskyldunnar er sýnd með slíku tali.

Þetta að það eigi ekki að tala opinberlega um glæpi Ægis vegna þess að fjölskylda hans finnur til hefur verið viðhaft í 20 ár og nú upp á síðkastið á þann hátt að það lítur út eins og við systur njótum stuðnings nærfjölskyldu Ægis. Það að gangast loks við því sem við höfum svo lengi verið að segja er jú mikil viðurkenning, en því hefur ekki verið fylgt eftir á annan hátt en með tilraunum til að sussa niður í okkur. Orðið stuðningur á því bara ekkert við hér og kominn tími til að leiðrétta það.

Ef það er sjúkdómur sem framkallar ofbeldisverk Ægis Geirdal þá inniheldur sá sjúkdómur mikinn, viðvarandi skipulagshæfileika og einbeittan brotavilja. Hver á að taka ábyrgð á því? Börnin sem eru svo óheppin að vera gripin til að sinna sjúklingnum? Stöndum undir nafni sem fullorðið fólk.

Það er mjög skiljanlegt að þeir sem tengjast Ægi nánum böndum þjáist mikið. Eins og allir hafa gert sem  koma meiddir frá honum. Við óskum fjölskyldu Ægis velfarnaðar í að vinna sig út úr þeim harmleik sem þau hafa búið við. Við vitum að þetta er erfitt en um leið felst í því mikill sigur að horfast í augu við óttann og taka ábyrgð á sjálfum sér.

En ábyrgðin stoppar ekki þar. Við öll, sem erum orðin fullorðin og getum með einhverjum hætti stöðvað þessa ofbeldisslóð ber siðferðisleg skylda til þess. Þar berum við jafnt ábyrð á okkar eigin börnum og annarra. Barnaníð er aldrei einkamál sem fjölskylda níðinga getur tekið að sér að leysa. Barnaníð er glæpur.    

Ef það má svo eingöngu fjalla um barnaníð sem opinberar manneskjur fremja þá erum við Ægi ákaflega þakklátar fyrir að hafa gert sjálfan sig að opinberri persónu. Því það hefur hann svo sannarlega gert.

Við systur stöndum við allt sem við höfum verið að segja og blásum á allar tilraunir til að þagga niður í okkur. Ástæðan er einföld, það er ekkert sem réttlætir þöggun í kringum glæpaslóð Ægis Geirdal.

Lifum heil,
Ingibjörg og Sigurlína

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/alma-geirdal-pabbi-er-ekki-opinber-persona---asakanir-um-barnanid-eru-ekki-frettaefni

Thursday, January 27, 2011

Stefnur


Skv. pósti, frá Opus lögmönnum, sem okkur systrum hefur borist, verður þingfest á okkur stefna eftir 31. janúar næstkomandi  vegna ærumeiðinga og brota á friðhelgi á einkalífi Ægis Geirdal. Við fögnum því að fá loks tækifæri til að leggja þær upplýsingar sem við höfum um Ægir fyrir dómstóla.

Hér fyrir neðan er það sem við höfum að öðru leyti um bréfin frá Opus lögmönnum og kröfur Ægis að segja, bréfin sjálf og umfjöllun vefmiðilsins Pressunnar um málið. Takk kærlega fyrir ykkar einörðu afstöðu gegn þögguninni í kringum Ægir Pressufólk. 

Viðbrögð við bréfum:
Stefnur, hótanir og refsingar munu ekki breyta sannleikanum í lygi og eins og áður eru réttar upplýsingar um Ægir Geirdal það eina sem hann fær og á rétt á að fá frá okkur, hátt og skýrt!
Í um 20 ár höfum við systur reynt að fá kerfið til að taka við og fylgja eftir þeim skelfilegu upp­lýs­ingum. Kerfið hefur ekki kært sig um þær og tekið þannig fullan þátt í þögguninni í kringum brot þessa níðings. Nú hefur hann sjálfur sett sig í hendurnar á þessu sama kerfi með því að stefna okkur og fjöl­miðlunum sem neita að taka þátt í þögguninni í kringum hann. Kerfið kærir sig um svo­leiðis útspil og ræður væntanlega við það enda kannski mest við hæfi að fáránleikinn takist á við sjálfan sig.
Loksins, segjum við nú bara og væntum þess að réttarkerfið nýti um leið tækifærið til að kanna sannleiks­gildi þess sem við systur höfum verið að reyna að koma á framfæri við það í öll þessi ár. Það er mjög auðvelt og það er rangt sem segir í stefnum gegn okkur að við höfum engar sannanir fyrir því sem við erum að segja. Minningar okkar eru til vitnis um skelfilega glæpi Ægis og ég, Ingibjörg, á langa sögu sem er mjög mörkuð af þeim níðingsverkum sem Ægir framdi á mér sem barni. Það getur bæði fólk og stofnanir borið vitni um. Við getum líka bent á fullt af fólki til viðbótar sem hefur miklar upplýsingar um níðingsskap Ægis og getur aðstoðað við að raða saman afbrotasögu hans. Hún er nefnilega ákaflega auðrekjanleg.
Við lítum því á stefnurnar sem tækifæri  til að láta reyna almennilega á hvers konar réttarkerfi okkur er búið í kringum glæpamenn eins og Ægir Geirdal. Einnig tækifæri til að bæta það kerfi svo það verði réttlátlega úr garði gert. Börn og allir þeir sem lenda í klóm níðinga eiga nefnilega svo miklu betra skilið en þann raunveruleika sem hefur birst okkur systrum í þeirri baráttu að koma réttum upplýsingum um þennan mann á framfæri.
Það kemur ekki til greina að við látum neyða okkur til hlýðni við óréttlátt réttarkerfi og tökum enda ekki til okkar að það að tala upphátt um brot Ægis geri okkur að glæpamönnum. Við lifðum níðingsverk hans af og erum til vitnis um þau, við viljum að á það sé hlustað og okkur ber uppreisn æru en ekki refsing ofan í glæpina sem hafa verið framdir á okkur.
þið sem getið hjálpað okkur að stöðva brotaslóð Ægis með því að stíga fram með þær upplýsingar sem þið hafið, það er ekki of seint og það mun svo sannarlega hjálpa. Þið öll sem hafið stutt okkur nú þegar, með því að lýsa því yfir að þið trúið því sem við erum að segja og með því að hvetja okkur áfram í orðum og gjörðum, kærar þakkir, það er mikils metið og gefur okkur sprengikraftinn sem við þurfum til fylgja þessum ljóta sannleika eftir alla leið.
Ingibjörg og Sigurlína

Stefnur:



http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/aegir-geirdal-hotar-systrum-logsokn-thaer-fagna-thvi-ad-geta-sannad-asakanir-um-misnotkun