Tuesday, October 25, 2011

Almenn skynsemi segir að það ætti að vera auðvelt að takast á við kynferðislegt ofbeldi á börnum – En í raunveruleikanum þarf til þess mikinn kjark

Hver fann upp á fyrningarfrestinum?

Mikið ofboðslega hafa það verið sterk öfl sem komu þeirri hugsun inn í réttarkerfið á sínum tíma að fyrning ætti við þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi og öðru því ofbeldi sem viðgengst gegn börnum. Svo sterk að þrátt fyrir að fólk viti nú almennt mikið betur um hvernig gerendur tryggja sér þögnina er enn ekki búið að afmá þetta orð út úr kerfinu þegar kemur að þessum brotaflokkum. Það má líka enn heyra leifar af gamalli hugsun sem birtist í fullyrðingum eins og þeim að ekki sé mark takandi á börnum sem upplýsi um svona glæpi gegn sér þar sem þannig sögur séu oftast sprottnar úr sterku ímyndunarafli barna. Eða að meðferðaraðilar stundi þá iðju að planta inn fölskum minningum um kynferðislegt ofbeldi í æsku hjá fullorðnum skjólstæðingum sínum. Segir hver fyrir hönd hvers?

Þöggunarviðhorfið er til allrar hamingju á undanhaldi

Við getum ekki svarað því hvað Freud var eiginlega að pæla þegar hann tók þátt í að koma þessu þöggunarviðhorfi inn í vestræna sálfræði? Klárlega var það ekki hagur okkar sem höfum ekki einungis þurft að leggja mikið á okkur til að sækja okkur leyfi til að ganga upprétt eftir að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi, heldur hafa mörg okkar þurft að heyja mikla og óréttláta baráttu til að fá að tala rétt um fortíð okkar og líf. Þau rök að við getum ekki munað rétt svona löngu seinna standast ekki raunveruleikann. Mörg okkar muna einmitt ekki fyrr en löngu seinna og þá jafnvel í miklum smáatriðum. Það er algengt að þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku fái ekki æskuminningar í heild og samhengið i eigið líf fyrr en komið er langt inn í fullorðinsárin. Fyrndar minningar? Nei, svo vondar minningar í óréttlátu samfélagsviðhorfi að líkami og sál beitir gríðarlegu afli við að bæla þær niður. Við vitum um svo sorglega mörg dæmi þess að jafnvel margfullorðið fólk gerir allt til að finna sér leiðir til að svæfa sársaukann, sektarkenndina og skömmina sem hefur verið plantað í það vegna þess sem aðrir hafa leyft sér að gera þeim. Til að lifa lífið af.

Hvert er hið raunverulega taboo þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi?

Við þekkjum engan sem fyllist ekki ótta þegar hann stendur frammi fyrir því að þurfa að taka á kynferðislegu ofbeldi eða grun um það í sínu nánasta umhverfi. Eða við tilhugsunina eina saman. Því er oft haldið á lofti að kynferðislegt ofbeldi sé svo skelfilegt, sérstaklega þegar það beinist gegn börnum, að það sé taboo í samfélaginu. Eitthvað sem samfélagið leyfi ekki að viðgangist. Sá partur sem snýr að því hversu skelfilegt þetta ofbeldi er á við öll rök að styðjast en þegar horft er á að á.a.g. fimmta hvert barn lendir í kynferðislegu ofbeldi og meira en helmingur þeirra á grófan hátt þá stenst sú fullyrðing ekki að samfélagið líti á þessi brot sem alvarlegan glæp. Réttara væri að tala um að í samfélaginu grasseri faraldur kynferðislegs ofbeldis gegn börnum. Ofbeldi sem því miður þrífst með leyfi samfélagsins því tabooið er svo sannarlega til staðar en það á bara ekki við brotin sjálf. Tabooið á við hvernig ekki hefur verið leyfilegt að tala um kynferðislegt ofbeldi eða spyrja spurninga sem geta beint athyglinni að gerendum þess og þöggunarmunstrinu í kringum þá. Getið þið séð fyrir ykkur sama samfélagsdoðann ef rannsóknir sýndu fram á að fimmta hvert barn verði fyrir bíl? Tæplega. Þegar kemur að óttanum sem fólk fyllist þegar það þarf að takast á við kynferðislegt ofbeldi í sínu nánasta umhverfi þá er það einfaldlega þannig að flestir eru mjög þjálfaðir í að líta undan í þeim ótta, afneitun og skömm. Við verðum því að horfast í augu við það að við þurfum ekki einungis að takast á við úthugsuð brot gerenda kynferðisbrota heldur samfélag sem hefur leyft brotum þeirra að viðgangast með því að líta undan.

Æ fleiri kjósa að hafast að þrátt fyrir óttann

En nú eru nýir tímar þar sem sífellt fleiri sækja sér styrk og fræðslu til að horfast í augu við og takast á við þessa vá samfélagsins, ekki síst í gegnum réttlætisbaráttu einstaklinga og samtaka sem láta sig málið varða. Það er því sístækkandi hópur sem sækir sér persónulegt vald og styrk til að takast á við tabooið í kringum kynferðislegt ofbeldi þrátt fyrir eigin ótta við þessar aðstæður.

Að styðja fólk við að taka ábyrgð á eigin lífi

Það eru líka komnir þeir tímar að fólk getur ekki lengur treyst á þöggunina þegar það velur að brjóta á börnum. Margir þolendur ofbeldis neita einfaldlega að búa lengur við það viðhorf að þeim beri að axla ábyrgð á lífi annarra. Við tökum ábyrgð á eigin lífi, hversu sársaukafullt sem það hefur verið. Í því felst að vinna úr kynferðislegu ofbeldi sem við höfum ekki valið að verða fyrir og þess vegna skilum við ábyrgðinni til síns heima. En við lifum í samfélagi manna og þurfum að upplifa þaðan stuðning við að koma þessari ábyrgð á réttan stað, sjá að því sé fylgt eftir að gerendur axli sína ábyrgð og við þurfum að hafa samfélagslegt leyfi til að tala upphátt um líf okkar eins og það raunverulega var og er. Líka þegar það eru þeir nánustu sem brjóta af sér og fjölskyldan freistast til að líta undan. Sannleikurinn getur svo sannarlega verið skelfilegur en hann verður hvorki afmáður né leystur með fyrningarlögum, vondum sálfræðikenningum eða þögn.

Beinum athyglinni að gerendum

Það er skiljanlegt út frá hinu raunverulega tabooi þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum að samfélagið hafi ekki heldur þróað með sér markvissar leiðir til að láta gerendur þess axla ábyrgð á gjörðum sínum. Við þurfum því ekki einungis að sækja okkur fræðslu, styrk og verkfæri til að að horfast í augu við raunveruleikann þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Við þurfum líka að sækja okkur þekkingu, verkfæri og ekki síst kjark til að beina athyglinni að gerendum. Láta þá og leyfa þeim að axla ábyrgð á eigin gjörðum og hugsunum. Þessir gerendur geta verið allt frá barnsaldri upp í mjög fullorðnar manneskjur, hver með sínar ástæður og sögur eða hvernig skynsamlegt getur talist að nálgast framin brot og hegðun sem fólk hefur tamið sér. Þar til samfélagið sækir sér styrk til að takast á við þetta verkefni verða gerendur ýmist upphafðir í afneitun eða afgreiddir sem úrkast samfélagsins. Allt eftir því hvort það kemst á endanum upp um þá. Hvorugt gerir raunverulegt gagn.

Fyrning á einfaldlega ekki við þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi

Þeir sem geta sett sig í spor okkar sem höfum lifað við og lifað af kynferðislegt ofbeldi skilja mikilvægi þess að við látum ekki þagga niður í okkur með þeirri kröfu að við þurfum að sætta okkur við að málin okkar séu of gömul fyrir dómstóla þegar þau eru þess eðlis að þau eiga hvergi annarstaðar heima. Óréttlát lög gera ekkert annað en að viðhalda því ofbeldi sem við höfum sætt og ræna gerendur þess tækifærinu á að axla ábyrgð á eigin lífi. Því ofbeldi þarf að linna svo hægt sé að byggja upp alvöru virðingu fyrir börnum, okkar lífi, þeim sem fremja ofbeldisbrot gegn börnum, framtíðinni og bara lífinu almennt.

Ingibjörg og Sigurlína