Saturday, May 7, 2011

Kerfið gengst við því að barnaníðingar séu hættulegir umhverfinu

Það er frétt í Pressunni í gær um að manneskja sem verið hefur að níðast kyn­ferðis­lega á börnum hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á þeim grundvelli að hún sé hættuleg umhverfinu.
Vá þetta er ný setning frá kerfinu þegar kemur að barnaníðingum. Hjörtu okkar gleðjast, fagna áfangasigri og trúa að það styttist í fleiri framfaraskref frá þessu sama kerfi.
Fjölmiðlar fjalla líka um það í dag hvernig Þjóðkirkjan er loks að reyna að standa í lappirnar þegar kemur að kynferðisníði og taka ábyrgð á ofbeldisfullri þöggun á þeim bæ. Við reiknum með að réttarkerfið fylgist með og tileinki sér eitthvað af þessum vinnubrögðum svo það geti staðið siðferðislega undir því nafni sem því hefur verið gefið.
Þegar kemur að brotum Ægis Geirdal þá eru það svo margir sem þekkja til þeirra og enn fleiri sem efast ekki um sannleiksgildi þeirra. Það sem vantar upp á er að kerfið, sem við höfum búið okkur, taki það alvarlega, lagi sig að því að geta fylgt upplýsingunum eftir og gangi hreinlega á eftir því að fullorðið fólk segi satt þótt það sé kúgað og hrætt. Allt eins og væntanlega væri gert ef um líkamsmorð væri að ræða. Hvers vegna? Vegna þess að á bak við alla þessa sögu eru manneskjur sem verið er að brjóta á og fórna. Hugsið ykkur börnin sem eiga engan séns á að stíga fram á meðan fullorðna fólkið hefur ekki kjarkinn til þess.
Ægir Geirdal er svo sannarlega hættulegur umhverfinu og níðingsslóð hans er svo auðrekjanleg að það er í raun með ólíkindum að það skuli ekki vera búið að stöðva manninn. Þar til það gerist valsar hann um samfélagið í fullum lagalegum rétti, samfélagi sem tiplar á tánum framhjá níðingsslóð hans og viðheldur með því skelfilegu ofbeldi.
Í janúar á þessu ári var okkur, sem tölum hátt um sannleikann í kringum Ægi, hótað dómsmáli. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Það er vel hægt að ímynda sér að það sé vegna þess að með því að láta reyna á slíkt tekur ofbeldismaðurinn stóran séns á að fletta endanlega ofan af sjálfum sér og missa tökin á meðvirknihópnum í kringum sig. Þöggunarmúrnum sem hann hefur hlaðið. Úbbs og þá gæti hann staðið frammi fyrir því að þurfa að taka sjálfur ábyrgð á ofbeldisgjörðum sínum. Stór séns fyrir mann sem hefur ekki hikað við að fara í mál við allt og alla í gegnum tíðina, nema þá sem í meira en 20 ár hafa reynt að fá samfélagið til að taka við réttum upplýsingum um hann.
Auðvitað eru það vondar fréttir í sjálfu sér að eftirlifendur ofbeldismanna eins og Ægis skuli gleðjast yfir hótunum um að verða dregnir fyrir dóm fyrir að segja satt. Þannig útspil væri í raun samt einungis viðbót við þær hindranir, áhugaleysi og ofbeldi sem hefur mætt okkur við að fá samfélagið til að hlusta á þessa ljótu sögu. Dómsmálshótunum er líka tekið þannig og í þeirri von að kannski væru þær skrefið sem vantar upp á til að loks verði tekið í hnakkadrambið á barnaníðingnum Ægi Geirdal á þeim forsendum að hann er hættulegur umhverfi barna.
Við trúum því í einlægni að með aukinni meðvitund og virkri baráttu allra þeirra sem í alvöru stendur ekki á sama um þessi mál munum við sigla inn í tíma þar sem svo sannarlega verður raunhæft að segja: „fólk í okkar samfélagi kemst ekki upp með að níðast á börnum, sama hvaða brögðum það beitir.“
Góðu fréttirnar eru áfangasigrarnir sem eru að nást á þessari leið og þeim fögnum við innilega.   
Bjartsýniskveðjur inn í sumarið,
Ingibjörg og Sigurlína